Það er að sjálfsögðu vilji okkar að mannlífið sé gott í miðbænum

Í gær greindu Eyjafréttir frá því að Jóhann Guðmundsson einn af eigendum The brothers brewery hafi sótt um fyrir hönd fyrirtækisins eftir stækkun á lóð þeirra við Bárustíg 7 til norðurs í samræmi við meðfylgjandi mynd. Þar sem er merkt með rauðu er sú stækkun sem óskað var eftir. „Það er ljóst að sú starfsemi sem verður í húsnæðinu að Bárustíg 7 kallar nú eftir frekari afþreyingu fyrir fullorðna utanhús á meðan að þörfin fyrir bílastæði í miðbænum hefur fækkað gríðarlega við þessa breytingu. Einnig eru fjöldin af ónýttum bílastæðum í innan við 50m radíus frá þessu svæði. Við óskum þar af leiðandi eftir þessari lóð sem verður þá breytt í afþreyingarsvæði fyrir börn og fullorðna með leiktækjum, en hugmyndin er að setja upp stóra útgáfu af jenga og stóra útgáfu af tengja fjóra í röð ásamt því að vera með svæði til að njóta þeirrar menningar sem að The Brothers Brewery hefur búið til á síðustu árum.”

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir formaður Umhverfis- og skipulagsráðs

Við munum skoða með þeim önnur möguleg svæði
Niðurstaða skipulagsráðs var hinsvegar ekki jákvæð. “Ráðið getur ekki orðið við erindinu. Ráðið telur mikilvægt að ekki verði fækkað bílastæðum í miðbænum. Ráðið felur byggingarfulltrúa og formanni Skipulagsráðs að ræða við eigendur,” segir í bókun
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir formaður Umhverfis- og skipulagsráðs sagði í samtali við Eyjafréttir að vöntun væri á bílastæðum í miðbænum og því var þetta niðurstaða ráðsins „Eins og fram kom í niðurstöðu ráðsins við innsendu erindi þá var ekki hægt að verða við því eins og það var sett fram. Á því svæði sem sótt er um breytingu á eru sex bílastæði og þrjú af þeim mundu því frá hverfa. Þau þrjú bílastæði sem eftir eru yrði líklega ekki hægt að nota þar sem um leiksvæði fyrir börn er að ræða. Vöntun er á bílastæðum í miðbænum og því varð þetta niðurstaða ráðsins. Einnig kom fram í niðurstöðu ráðsins að byggingarfulltrúi og formaður ráðsins munu funda og ræða við eigendur. Við munum skoða með þeim önnur möguleg svæði í nágrenninu fyrir slík leiktæki. Það er að sjálfsögðu vilji okkar að mannlíf sé gott í miðbænum og þess vegna viljum við endilega funda með þeim og finna aðra lausn,“ sagði Jóna Sigríður.

Jólafylkir 2019