Afar dræm þátttaka var í skimun fyrir brjóstakrabbameini í Vestmannaeyjum í vor og kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað í póstsendingu boðsbréfa sem ekki bárust öllum konum sem komið var að í skimun.

Vegna þessa fer skimun fram að nýju 22. og 23. ágúst næstkomandi.

„Við vonum að það verði góð þátttaka í þetta sinn, enda hefur þátttaka í Vestmannaeyjum yfirleitt verið mjög góð,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir, deildarstjóri á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

„Við hvetjum allar konur sem komið er að skimun hjá að panta tíma hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands í síma 432 2500,“ segir Halldóra.

Boðið er upp á ókeypis leghálsstrok fyrir konur sem eru 23 ára á árinu og hafa fengið boðunarbréf og ókeypis brjóstamyndatöku fyrir konur sem eru 40 ára á árinu og hafa fengið boð um þátttöku í skimun.

Konur geta nú skoðað upplýsingar um boðun og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum rafrænt á mínum síðum Ísland.is. Skimunarsagan er afrakstur samstarfs á milli Krabbameinsfélags Íslands og Þjóðskrár Íslands. Þar sjá konur hvort komið er að skoðun og geta þá pantað tíma.