Þrettándinn – heimildarmynd um þrettándagleðina í Eyjum hefur verið sýnd fyrir fullu húsi í Eyjabíói undanfarin þrjú kvöld. Vegna mikillar eftirspurnar hefur verið bætt við aukasýningu mán. 30. des. kl. 18.00. Miðasala er í Eyjabíói og hefst kl. 17.15 samdægurs.

 

„Við höfum nýtt tímann til hins ítrasta til að sýna myndina eins oft og hægt er nú um hátíðirnar. Við bætum við sýningu mán. 30. des. kl. 18.00 og vonum að sem flestir geti séð hana. Þá verður myndin sýnd á laugardegi þrettándahelgarinnar, 4. janúar kl. 15.00, og fólk getur pantað miða á þá sýningu nú þegar í Eyjabíói,“ segir Sighvatur Jónsson, einn höfunda myndarinnar.

 

„Við erum mjög þakklát fyrir góða aðsókn,“ segir Geir Reynisson, annar höfunda myndarinnar. „Það er greinilegt að orðið hefur gengið hratt á milli fólks síðustu daga og það er almenn ánægja með myndina sem sýnir Þrettándann í Eyjum eins og fólk hefur aldrei séð hann áður.“

 

Hrefna Díana Viðarsdóttir þjóðfræðingur vann myndina með Sighvati og Geir en hún gerði þjóðfræðiritgerð árið 2012 um þrettándahátíðina í Eyjum.