Ég var spurð um daginn af hverju ég hefði lært að verða leikskólakennari og ég svaraði ,,Ég valdi ekki að verða leikskólakennari, ég fæddist leikskólakennari og starfið mitt valdi mig“.
Það getur vel verið að einhverjum finnist þetta asnalegt svar, það fæðist engin sem eitthvað starfsheiti og starf velji ekki manneskju en hei mér er svo slétt sama, í mínu tilfelli var þetta nákvæmlega svona.
Ég reyndi lengi að berjast á móti þessu, ætlaði mér að verða læknir, áttaði mig svo á því þegar ég var búin að falla þrisvar í stærðfærði 122 að kannski væri það ekki alveg mín hilla. Ætlaði að verða bifvélavirki en sá fljótlega að ég er með rýmisgreind og verkvit á við agúrku þannig sú hugmynd féll um sjálfa sig. Síðan fannst mér tilvalið að feta í fótspor foreldra minna og systur og verða grunnskólakennari. Þar sem ég er aðeins að verða miðaldra þá var grunnskólakennaranám ennþá mjög vinsælt þegar ég ákvað þetta og þar sem ég er svo einkar vel gefin þá ákvað ég að fara bakdyra megin inn í námið. Sótti um í leikskólakennaranám og ætlaði svo að skipta yfir í grunnskólakennaranám um árámótin…..sniðuga stúlkan sem ég er. Ég fékk inn í leikskólakennaranáminu, sagði upp vinnunni minni á Rauðagerði, flutti mig til Reykjavíkur, skundaði í Kennaraháskóla Íslands og settist á skólabekk í leikskólaskori, eins og námið kallaðist þá. Mér fannst ég hrikalega svöl þegar ég horfði í kringum mig í bekknum mínum, ákvað að tengjast nú ekki neinum þar sem ég ætlaði bara að stoppa við fram að jólum.
Kennslan hófst og þar með voru örlögin, sem mér voru ætluð frá fæðingu, ráðin. Eftir fyrsta skóladaginn kom ég heim og talaði þáverandi sambýlismann minn í kaf yfir hversu stórkostlegt þetta nám væri. Það var alveg sama hvaða fag ég fór í þennan dag, allt sem fór fram í þeim hitti mig beint í hjartastað og ég vissi að þarna og hvergi annars staðar vildi ég vera. Ég elskaði að fara í skólann, elskaði að drekka í mig allt um starf með yngri börnum, elskaði verkefnin sem snéru að námi yngri barna og elskaði bekkjarfélaga mína vandræðalega mikið. Stelpan sem engin tengls ætlaði að mynda, myndaði á fyrstu vikunni vináttubönd fyrir lífstíð með fólki sem allt hafði sömu ástríðu og ég.
Dagurinn sem ég fékk leyfisbréf mitt sem leikskólakennari í hendurnar er enn í dag einn af mínum uppáhalds dögum í lífinu. Ég hef sjaldan fundið fyrir eins miklu stolti og einmitt þennan dag. Að vera með það skjalfest að ég væri leikskólakennari, sérfræðingur í námi ungra barna. Sérfræðingur í litlu sálunum okkar sem eru framtíð þessa lands, já ég fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa um þennan dag.
Nú, 19 árum eftir að ég hóf minn starfsferil á leikskóla, fer ég enn glöð í vinnu. Ég hlakka enn til að hitta krílin mín, foreldra, samstarfsfólk og aðra sem að starfi mínu koma. Ég fæ enn kökk í hálsinn þegar krílin mín eiga erfiða daga, ég fæ enn hlátursköst oft á dag þegar krílin mín segja mér brandara og sögur, ég fæ enn gæsahúð þegar krílin mín fræða mig um allt það sem þau vita og kunna, ég fæ enn tár í augun þegar litlar hendur laumast um hálsinn minn eða í lófann minn, ég fyllist enn auðmýkt þegar foreldra afhenda mér það dýrmætasta sem þau eiga á morgnana og treysta mér skilyrðislaust fyrir þessum yndislegu litlu mannverum.
Það er aðeins eitt sem er hörmung við að vera leikskólakennari og starfsmaður á leikskóla og það eru launin, ef laun skal kalla. Mér finnst niðurlægjandi að skoða heimabankann minn fyrsta hvers mánaðar og sjá hvaða laun hafa komið inn á reikninginn minn. upphæðin er í svo hrópandi ósamræmi við vinnuna, ástina, hjartað og sálina sem ég legg í starfið mitt á hverjum degi, að mig langar að gráta. Að störf okkar sem vinnum á leikskóla við að hugsa um og mennta framtíð landsins skuli vera einskis metin er þyngra en tárum taki. Ég dáist að Eflingar fólki sem er hætt að láta bjóða sér þessa vanvirðingu og ákvað að gera eitthvað í málinu. Það væri gaman að sjá hversu lengi samfélagið myndi virka ef leikskólastarfsfólk myndi leggja niður vinnu í nokkra daga…..Ég get lofað ykkur því að það færi allt í fokk(afsakið orðbragðið en samt ekki).
En áfram gakk, ástríðufólk allra leikskóla, sem dag hvern leggur allt sitt í vinnuna sína, við skulum bera höfuðið hátt, klappa okkur vel á bakið og hrósa okkur fyrir það stórkostlega starf sem við innum af hendi alla daga.
Innilega til hamingju með Dag leikskólans.
,,Til lífs og til gleði“
Lóa
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst