Sæll aftur Sindri

Ég ætla ekki orðlengja þetta mikið frekar en vil þó segja eftirfarandi um grein þína ”Að velja sér slagina”:

Af textanum má skilja að ég hefði ekki átt að lýsa skoðun minni á ritstjórnarstefnu þinni í fyrradag; í fyrsta lagi af því að það eru páskar og í öðru lagi af því að það geysar kórónuveirufaraldur í heiminum. Að ég hefði sem sagt átt að velja annan tíma. Nú er það svo að ég valdi ekki tímann. Tilefnið var í páskavikunni og ég lýsti skoðun minni í sömu viku. Og þú fyrirgefur vonandi að ég sjái ekki af hverju kórónuveirufaraldurinn ætti að koma í veg fyrir að ég hafi skoðun á því sem Eyjafréttir gera eða láta ógert.

Þú segir á einum stað í greininni að ég hafi notað ”… ýmis tækifæri til þess að rýra trúverðugleika minn (þinn) sem ritstjóra…”. Hvar og hvenær hef ég gert það Sindri? Ég hef aldrei og hvergi minnst á trúverðugleika þinn sem ritstjóra fyrr en í þessum pósti núna í vikunni. Af hverju heldurðu fram þessari staðleysu? Maður gæti haldið að þú hafir ekki lesið yfir greinina áður en þú birtir hana.

Þú hefur þvert á moti fengið fullkominn frið fyrir mér þann tíma sem þú hefur verið ritstjóri, eins og vera ber. Og þetta hefur verið gagnkvæmt. Ég hef líka fengið fullkominn frið fyrir þér. Eyjafréttir hafa aldrei á þeim 7 eða 8 mánuðum sem þú hefur verið ritstjóri séð ástæðu til að eiga orð við fyrsta þingmann kjördæmisins þótt sá sé, í fyrsta sinn í sögunni, frá Vestmannaeyjum. Ekki einu sinni t.d. þegar þingmannsræfillinn fékk fyrir jólin samþykkta á Alþingi tillögu um óháða úttekt á Landeyjahöfn. Ekki einu sinni sú frétt var þess virði fyrir þig að taka upp símann og hringja. En það hefur örugglega heldur ekkert með ”persónulega óvild” – nú eða pólitískan fjandskap – að gera. Er það nokkuð Sindri? Þessi Landeyjarhafnarfrétt var kannski bara ekki nógu merkileg.

En þetta er allt saman gott og blessað – þú hefur þína skoðun og ég mína. Ég ætla þó að gera eina játningu áður en ég lýk þessu: ég sé eftir að hafa sagt upp Eyjafréttum um daginn – hefði átt að láta póstinn duga að öðru leyti. Ég óska hér með eftir að þú setjir mig aftur á áskrifendalistann. Ég vil geta farið inn á vefinn ykkar með góðri samvisku og fengið blaðið heim til mín. Það er ýmislegt gott sem þið gerið og ég vil leggja mitt af mörkum til að Eyjafréttir haldi áfram að koma út og veiti fólki vinnu. Ég held að það verði líka spennandi að fylgjast með því hvernig þú dafnar og þroskast í starfi ritstjóra.

Páll Magnússon