Morgunútvarpið á Rás 2 var sent út frá Vestmannaeyjum í dag. Eyjamenn fagna Þjóðhátíð hver með sínu nefi að þessu sinni þar sem ekki verður um nein stórhátíðahöld að ræða. Margir hafa brugðið á það ráð að tjalda hinum hefðbundnu hvítu þjóðhátíðartjöldum úti í garði hjá sér og skapa þar álíka stemmingu og í dalnum, en bara með sínum nánustu. Hulda Geirsdóttir kíkti í tjaldið hjá Helgu Jónsdóttur og Arnóri Hermannssyni í gærkvöldi og heyrði í þeim hljóðið.

Bjargveiði og sauðfjárbúskapur er stundaður í úteyjum Vestmannaeyja. Í eyjunum er gjarna að finna veiðhús og veiðifélög og þar ríkir skemmtileg stemming og sérstök menning. Þau Kristín Bernharðsdóttir, sem er fyrsta konan til að fá inngöngu í veiðifélag, og Svavar Steingrímsson, sem m.a. gengur á Heimaklett nánast á hverjum degi, kíktu í morgunkaffi í Eldheimum.

Vignir Skæringsson er einn þeirra sem sjá um mjaldrasysturnar Litlu grá og Litlu hvít sem dvelja í góðu yfirlæti í húsnæði Sea Life Trust í Eyjum, en flytja fljótlega út í Klettsvík. Vignir segir mjaldraþjálfun skemmtilegasta starf sem hann hefur sinnt, en Hulda heimsótti Vigni, og þær systur, í gær.

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og Jónas Guðbjörn Jónsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, mættu og ræddu áhrif niðurfellingar Þjóðhátíðar á bæjarfélagið og íþróttastarfið, stemminguna í bænum og hvernig Eyjamönnum hefur gengið að takast á við ástandið, en fjöldi þeirra smitaðist af kórónuveirunni fyrr í vetur. Eyjamenn eru ekki óvanir því að takast á við stórar áskoranir og við heyrðum hvað þau Íris og Jónas sögðu um framhaldið.

Púlsinn var tekinn ungu Eyjafólki og spurðum hvað ætlar unga fólkið í Eyjum að gera þegar engin er Þjóðhátíðin? Þau Rakel Ýr Leifsdóttir og Patrick M. Rittmuller kíktu í spjall og sögðu frá hvernig unga fólkið tekst á við stöðuna.

hægt er að hlusta á þáttinn hér