Samantekt á niðurstöðum sameiginlegs uppsjávarleiðangurs Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana liggur fyrir. Meginmarkmið leiðangursins var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi en jafnframt að rannsaka vistkerfi og umhverfi sjávar. Leiðangurinn var meðal annars farinn á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni HF 200 á tímabilinu 30. júní til 3. ágúst nú í sumar.

Vísitala lífmassa makríls var metinn 5,15 milljónir tonna sem er 58% lækkun frá árinu 2020 og er minnsti lífmassi sem mælst hefur síðan 2012. Á hafsvæðinu við Ísland mældist 19% minna af makríl en 2020 en þétteikinn mældist mestur í miðju Noregshafi. Makríll mældist suðaustan og austan við landið. Í fyrra mældist enginn makríll fyrir austan land. Óverulegt magn mældist norðan og vestan við Ísland.

Magn norsk-íslenskrar síldar er svipað á milli ára. Talið er að 2016 árgangurinn sé að fullu gegninn úr Barentshafi í Noregshaf og vóg árgangurinn um 54% af lífmassa stofnsins. Líkt og fyrri ár mældist mikið af eldri síld fyrir austan og norðan Íslands. Yngri síldin virðist vera í norðaustur Noregshafi.

Einnig var lögð áhersla á að ná yfir allt útbreiðslusvæði kolmunna og að meta stærð stofnsins. Mælingar á stofnstærð sýna 22% stækkun. Kolmuni fannst á mest öllu rannsóknarsvæðinu nema í köldum sjó í Austur Íslandsstraumnum milli Íslands og Jan Mayen.

Austan og norðan Íslands var hiti í í yfirborðslögum sjávar ívið hærri nú en á sama tíma í fyrra og hærri en meðaltal síðustu 20 ára.

Niðurstöður leiðangursins voru kynntar innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í síðustu viku. Þær má nálgast á vef Hafrannsóknarstofnunar þar sem nánar er greint frá niðurstöðum.

Vísitala um magn makríls reiknuð fyrir reiti (2 breiddargráður og 4 lengdargráður) í júní til ágúst 2021. Enginn makríll mældist í hvítum reitum og gulur til rauður litakvarðinn táknar vaxandi þéttleika sem tonn á ferkílómetra. Stærð hringja sýnir magn makríls á togstöðvum sem tonn á ferkílómetra og grár kross eru togstöðvar þar sem enginn makríll veiddist.