Viðskiptaráð Íslands hefur frá árinu 2015 haldið úti vefnum Hvar er best að búa, þar sem notendum gefst kostur á að bera saman kostnað við að búa í sveitarfélögum landsins. Á vefnum er hægt að slá inn upplýsingar út frá búsetu, fjölskyldusamsetningu, launatekjum og stærð húsnæðis.

Vefurinn Hvar er best að búa er tól til þess að upplýsa íbúa um gjöld og álögur í sínu sveitarfélagi en í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er hlutverk frambjóðenda einmitt að rökstyðja hvers vegna best geti verið að búa í sveitarfélagi þeirra.

Á vefnum má sjá yfirlit yfir skatta, gjöld og skuldir sveitarfélaganna miðað við gjaldskrár 2022. Einnig má bera saman niðurstöðurnar við landsmeðaltal og önnur sveitarfélög. Markmið Viðskiptaráðs með vefnum er að auka gagnsæi um skattheimtu, gjöld og skuldsetningu á sveitarstjórnarstigi.