Eftir kosningar, eins og eftir flesta aðra viðburði og eða keppnir, er gott að staldra aðeins við og skoða hlutina og reyna að gera það á gagnrýnan og heiðarlegan hátt.

Ég er sjálfstæðismaður, það vita sennilega einhverjir.  Fyrir kosningar heyrðust margir ræða um þátt Gríms Gíslasonar í kosningabaráttu flokksins og kvað svo rammt að þessu að meira að segja helstu andstæðingar flokksins héldu nafni hans á lofti og spyrtu hann við bæjarstjórastarfið, þannig að Grímur þurfti hreinlega að splæsa sjálfur í grein til að sverja þetta af sér.

Einhverjir höfðu þá skoðun á greinaskrifum Gríms að þær væru að eyðileggja fyrir flokknum, að þetta væru neiðkvæð skrif og hálfgerð niðurrifsstarfsemi.

Grímur Gíslason er að mínu mati einn af hollvinum Eyjanna.  Maður sem býr og vinnur virka daga uppi á landi, en ver eiginlega öllum öðrum tíma sínum ásamt Guðrúnu eiginkonu sinni hér í Eyjum.  Hann hefur um langt árabil og held ég eiginlega alltaf, verið með lögheimili hér í Eyjum og greiðir því útsvarið sitt hér.  Hann hefur unnið gríðarlega vel fyrir byggðarlagið sitt, til að mynda þegar hann var í stjórn Herjólfs.

En Grímur er umdeildur, sennilega af því að hann tjáir skoðanir sínar og setur þær ekki endilega í einhverjar fallegar umbúðir, bara setur þær fram.   Oftast mjög málefnalegur og rökstyður sitt mál.  Ef það er eitthvað sem við þurfum á að halda, þá er það fólk eins og Grímur.  Taktu eftir, við þurfum ekki að vera sammála honum, ég er það bara alls ekki alltaf, en við þurfum fleiri skoðanir á ólíkum málum og við eigum að geta rætt um málefni og jafnvel menn, án þess að gera það persónlegt og/eða rætið.  Þótt Grímur sé oft beittur penni, er hann ekki rætin, það er allavega mín skoðun.

Að mínu mati þurfum við frekar að styðja við ólíkar skoðanir, en ekki ÖSKRA á fésbókinni úlfur, úlfur, ef einhver vogar sér að skrifa greinar.  Við sjálfstæðisfólk ættum aukinheldur að styðja við Grím í hans viðleitni til að benda á það sem betur mætti fara og standa með honum, í stað þess að koðna niður við það eitt að á hann séu settir fýlukarlar á Facebook og hann jafnvel útmálaður þar sem „vondi kallinn“.

Ég hvet þig Grímur minn til áframhaldandi skrifa og góðra verka og ef ég er sammála þér mun ég láta vita af því, en ég læt líka vita af því ef ég er ekki sammála þér – lykilatriðið er að gæta hófsemi í skrifum og muna að allir eiga og mega hafa sínar skoðanir J

Við Eyjamenn skulum vera í forystu um það að vanda orðalag á Facebook, því jú „það læra börnin, sem fyrir þeim er haft“ og við höfum ekki alltaf verið til eftirbreytni á þessum vettvangi.

Nýrri bæjarstjórn óska ég svo til hamingju og alls velfarnaðar og vona að við getum þar sem annarsstaðar unnið saman að því að gera Eyjarnar enn betri stað til að búa á – því hér eigum við heima!

Með Eyjakveðju

Bjarni Ólafur – Daddi