Nú styttist óðum í fjórða leik ÍBV og Vals í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta, en leikurinn fer fram í Íþróttamiðstöðinni á morgun, laugardag kl. 16:00. Upphitun fyrir leikinn hefst kl. 14:00 þar sem verður boðið upp á gómsætar veitingar af grillinu, kalda drykki auk þess sem hoppukastali verður á svæðinu. 

Við fengum Erling Richardsson, þjálfara liðsins til að deila með okkur hvernig liðið undirbýr sig fyrir komandi átök. 

 „Við lærðum helling af síðasta leik, og þá helst hvar við getum bætt vörnina. Við höfum farið yfir það, en þetta hefur verið langt tímabil, svo við erum ekki að vinna í neinu stóru nema að halda hópnum mikið saman og stemmingunni góðri,“ segir Erlingur. 

„Meðal þess sem við höfum verið að gera er að fara í sund, golfkennslu og svo eru eigendur veitingastaðanna hér í bænum duglegir að styðja við bakið á okkur og bjóða okkur í mat.“

En hvað gerir Erlingur sjálfur í sínum persónulega undirbúningi?
„Ég horfi aftur á leikinn og klippi hann til, svo bara að hafa nóg annað að gera, halda sem mestu jafnvægi í daglega lífinu.“

Bæði liðin eru augljóslega góð, á hverju mun þetta velta á lokametrunum?
„Bæði lið hafa ferska unga stráka í bland við reynslubolta, og félögin hafa komist langt á heimamönnum og það er eftirtektarvert. Mín skoðun er sú að það lið sem mun fyrst gera mistök í leiknum, mun fá það fljótt í bakið. 

En er Erlingur bjartsýnn á Eyja sigur á morgun?
„Já. Sigur! Klárlega. Við gerum allt til þess. Stuðningurinn er mikill og við finnum það og við ætlum að standa undir væntingum fyrir Eyjafólk sem mætir á leikinn.“

Við óskum Erlingi og öllum leikmönnum ÍBV góðs gengis í leiknum á morgun og hvetjum allt Eyjafólk til að mæta.