Upphitun fyrir leik íBV hefst í dag kl. 14:00, þar má næla sér í gómsætan grillmat, kalda drykki og einnig verður hoppukastali fyrir börn. Það á enginn að þurfa að fara svangur inn á völlinn þar sem strákarnir okkar mæta Valsmönnum í fjórða leik í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. 

Vilmar Þór, framkvæmdastjóri handboltadeildar ÍBV svaraði því til að ótrúlegt, en satt, þá væru enn til miðar á leikinn. Og allir eru bjartsýnir á sigur. Félagið stóð fyrir hópferð á síðasta leik í Valsheimilinu þar sem 140 einstaklingar frá Eyjum skelltu sér með. „Við þurfum örugglega fleiri rútur næst, því í fyrsta leik voru 100 manns, mikill áhugi endurspeglast í þessari fjölgun áhorfenda á milli leikja, enda spennan gríðarleg,“ sagði Vilmar. 

Stuðningsmanna hópurinn; Hvítu riddararnir, hafa verið áberandi í stúkunni á leikjum liðsins og haldið uppi góðri skemmtun fyrir áhorfendur og verið stór partur af því að veita liðinu góðan stuðning á meðan leik stendur. Að öðrum ólöstuðum, eru það bræðurnir Baldur og Hannes sem leiða starf hópsins. „Við erum svona milli 30-40 manns að brasa í þessu fyrir hvern leik, en hópurinn telur líklega 100 manns í heildina en þeir koma bara þeir sem geta hverju sinni,“ sagði Baldur. 

„Við höfum alveg öskrað okkur hása á leikjum, við erum að syngja um leikmenn liðsins og nota frumsamda texta og svo lifum við okkur inn í þetta enda erum við flestir fyrrum leikmenn og höfum skoðanir á öllu sem gerist á vellinum.“

„Fyrirtæki í bænum hafa styrkt okkur í þessu, við vorum til dæmis á þessu tímabili allir með eins hárkollur, svo erum við með confetti sprengjur á öllum leikjum og núna í úrslitakeppninni höfum við komið Tröllinu inn á völlinn. En það er alveg bras, síðast voru 15 manns að koma honum inn í hús, en þetta er bara allt svo gaman, við gerum allt fyrir liðið.“

En er Baldur bjartsýnn á Eyjasigur í dag? „Já, það er ég. Þeir eru bestir með bakið uppvið vegg.“