Miðbæjarfélagið Heimabær, var stofnað síðla árs 2021 af áhugafólki um miðbæ Vestmannaeyja. Tilgangur félagsins er að vinna að og hvetja á jákvæðan hátt að uppbyggingu miðbæjarins enn frekar.

Eitt af markmiðum félagsins er að skilgreina miðbæinn betur svo gestir og gangandi átti sig betur á því hvar hann er. Þá kviknaði sú hugmynd að setja upp boga sem nokkurs konar inngang inn í miðbæinn okkar.

Hugmyndavinna fór af stað og þar var í farabroddi Sigrún Arna Gunnarsdóttir stjórnarmeðlimur og Ríkarður Stefánsson ásamt stjórn. Stjórn félagsins sótti í kjölfarið um styrk hjá Vestmannaaeyjabæ í verkefninu: „viltu hafa áhrif.“ Styrkurinn gerði félaginu kleift að keyra af stað í verkefnið.

Næst var að fá tilboð í verkið og buðu Eyjablikk þar best og hefur þeirra hjálp og vinna verið ómetanleg og er stjórnin afar sátt með samstarfið við þau.

Umhverfis- og skipulagsráð er búið að samþykkja uppsetninguna á boganum og til að byrja með verður einn bogi reistur. Hann verður staðsettur á horni Bárustígs og Strandvegs, nánar tiltekið, á milli Eymundsson og Kráarinnar.

Markmiðið er að hann verði skreyttur við hvert tilefni, til dæmis á 17. júní, á Goslokahátíð, fyrir jólin osfrv.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Miðbæjarfélaginu, Heimabær.