Í Félagi kaupsýslumanna Vestmannaeyjum sitja sex konur í stjórn. Flestar þeirra koma að verslun en aðrar eru með annars konar fyrirtæki eða hafa verið í rekstri. „Við hittumst nokkrum sinnum ári og skipuleggjum fundi og förum yfir hvað er framundan, eins og stórar helgar, auka opnanir og annað sem við kemur að félaginu, segir Sigrún Alda Ómarsdóttir sem situr í stjórn félagsins og er eigandi Litlu Skvísubúðarinnar.  

Verkefni félagsins eru meðal annars að skipuleggja, opnunartíma verslana fyrir jólin, jóladagatalið og annað sem viðkemur sameiginlegum ákvörðunum í kringum verslun og þjónustu í Eyjum. „Svo er bara svo gaman að hittast og ræða málin. Í sumar gáfum við Vestmannaeyjabæ merktan bekk frá félaginu í tilefni 50 ára goslokarafmælis. Vestmannaeyjabær hefur verið duglegur að styrkja okkur með því að gefa gjafabréf í jólagjöf, sem hægt er að nota í verslunum sem eru í félaginu okkar.”  

Aðspurð hvort mikill undirbúningur fari í jólatímabilið: Segir Sigrún Alda að hjá félaginu þurfi að taka nokkrar ákvarðanir sem eru yfirleitt ákveðnar á fundi. „Til dæmis jólaopnun, jóladagatalið, auglýsingamál og annað. Já,  það er allt vel undirbúið.” Segir hún jólatímabilið yfirleitt það stærsta og mest að gera í desember. „Júlímánuður einnig mjög flottur hjá mér. Þá er mikið af ferðafólki á Eyjunni sem kíkir til okkar og verslar, sem er gott fyrir okkur. Sumarið í ár var gott og vonandi verður næsta sumar enn betra” segir Sigrún Alda. 

Stefna á jóladagatal 

Í ár stefnir Félag kaupsýslumanna á að vera með jóladagatal sem hægt verður að fylgjast með inni á Verslanir í Eyjum á Facebook og á Instragram. „Verða fyrirtæki sem eru í félaginu með eitthvað spennandi á hverjum degi. Það er um að gera að fylgjast með því. Svo vonumst við auðvitað til að Vestmannaeyingar kjósi að versla í sinni heimabyggð eins og áður. Það er hagur okkur allra” segir Sigrún að lokum.