Í síðustu viku afhenti Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs, samtals 13 styrkþegum fjárstyrki til verkefna sem hlutu styrk í tengslum við „Viltu hafa áhrif?“ fyrir árið 2024. 

Athöfn af þessu tilefni fór fram í Ráðhúsinu þar sem skrifað var undir samstarfssamning um hvert verkefni.

Markmiðið með “Viltu hafa áhrif?“ er að stuðla að auknu íbúalýðræði í Vestmannaeyjum með því að gefa fólki, fyrirtækjum og félagasamtökum tækifæri á að hafa áhrif á fjárhagsáætlun hlutaðeigandi árs. Fjölmargar góðar ábendingar hafa borist í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna styrki til fjölda sýninga, menningartengda bókaútgáfa, leiktækja á opnum svæðum og göngustíga. Einnig hafa ávallt borist fjöldi ábendinga og er þeim alla jafna komið í fargveg innan bæjarkefisins.

Verkefnin sem hlutu styrki eru fjölbreytt og spennandi. Óskar Vestmannaeyjabær öllum styrkþegum til hamingju.

Samtals nam úthlutun fjárstyrkja 5,5 milljónum króna.

1. Handboltaskóli ÍBV – 250.000 kr.
Handboltaskóli ÍBV: Laun þjálfara, fyrirlesarar, gisting og ferðalög fyrirlesara/þjálfara, matur og bolir.

2. Flugeldabingó ÍBV – 350.000 kr.
Flugeldabingó: Kostnaður við húsaleigu á Höllinni og kaup á flugeldum.

3. ÍBV – Tækjasalur í Týsheimili – 700.000 kr.
ÍBV Íþróttafélag er að koma sér upp fullkomnum tækjasal í Týsheimilinu. Nýi salurinn verður stærri en sú aðstaða sem er fyrir hendi núna og mun nýtast betur fyrir stærri hópa. Þar af leiðandi var ákveðið að bæta inn styrktaræfingum í Afreksakademíu ÍBV og FÍV og hjá iðkendum í 7. og 8. bekk, en þetta eru þeir hópar sem vantað hefur inn á æfingar. Íþróttaakademía ÍBV og GRV mun einnig hafa aðstöðu þarna ásamt öllum meistaraflokkum félagsins, bæði í knattspyrnu og handknattleik.

4. ÍBV – Battavöllur við Týsheimilið – 500.000 kr.
ÍBV íþróttafélag óskar eftir styrk til að kaupa battavöll úr varanlegu efni til að hafa austan megin við Týsheimilið fyrir iðkendur að leika sér á fyrir og eftir æfingar. 

5. Listvinafélag Vestmannaeyja – Djazzhátíð – 500.000 kr.
Verkefnið felur það í sér að endurvekja djazzhátíð á hvítasunnu. Þá hefð sem Listvinafélag Vestmannaeyja stóð fyrir í yfir 20 ár. Til stendur að halda hátíðina á hvítusunnuhelgi næsta árs. Laugardagskvöldið 18. maí verður hátíðin sett. Þetta verkefni hefur það að markmiði að efla, hvetja og varðveita menningu Eyjanna og þeirri tónlist sem þeim hafa fylgt. Einnig að stuðla að fjölbreyttara úrvali af tónlistarstefnum á tónleikum sem í boði eru fyrir íbúa Vestmannaeyja. Á sama tíma er verið að endurvekja hefð sem lifði góðu lífi í rúm 20 ár. Í því skyni hefur verið hafist handa við að stofna óhagnaðardrifin félagasamtök utan um verkefnið og endurvekja þannig Listvinafélag Vestmannaeyja með eina eftirlifandi meðlim hins upprunalega félags.

6. Villikettir í Vestmannaeyjum – 400.000 kr.

Markmið hjá Villiköttum er að stuðla að því að koma þessum dýrum til hjálpar með skipulögðum aðgerðum. Þar vegur þyngst að ná dýrunum, gelda eða framkvæma ófrjósemisaðgerðir. Félagið Villikettir hefur greitt allan læknakostnað, geldingar og fleira sem Dýralæknaþjónustan sinnir og er það mikill kostnaður. Það er margt sem þarf að endurnýja hjá Villiköttum og reynt er eftir fremsta megni að fá sem mest gefins en ekki er alltaf hægt að stóla á það. Gott væri að geta sinn starfinu án þess að hafa fjárhagsáhyggjur.

7. Allir í bátana – 500.000 kr.
Fyrir hönd áhugahóps um verkefnið Allir í bátana 1973 var sótt um styrk til að smíða notendavænt viðmót fyrir vefsíðuna 1973-alliribatana.com. Hugmyndin er að viðmót vefsíðunnar verði notendavænt þannig að hægt verði með greiðum hætti að fletta upp nöfnum einstaklinga og báta þannig að fólk geti auðveldlega séð hvernig það sjálft eða ástvinir þess fóru frá Heimaey þessa örlaga nótt.

8. Fab Lab stelpur og tækniþróun – 400.000 kr.
Námskeiðið verður keyrt á vormánuðum 2024 og einblínt á að virkja ungar stúlkur í Vestmannaeyjum í tækniþróun og nýsköpun. Kenndur verður grunnur á þær vélar sem í boði eru í Fab Lab smiðjunni ásamt tæknivinnslu og hugmyndaþróun. Áhersla verður sett á sköpun í tækniumhverfi og að styrkja stelpurnar í að koma frá sér hugmyndum og afla sér upplýsinga til að geta lært hvað sem er.

9. Listasmiðja fyrir börn í Vestmannaeyjum – 300.000 kr.
Listasmiðjan er ætluð fyrir börn á aldrinum 6 – 13 ára og er haldin í Vestmannaeyjum. Í listasmiðjunni sækja þátttakendur innblástur í nærumhverfi og náttúruna, fara í vettvangsrannsóknir og skissa úti. Krakkarnir kynnast ólíkum aðferðum við listsköpun og skissuvinnu og vinna með efnivið úr náttúru Vestmannaeyja og fá kennslu í nýjungum í listsköpun frá listgreina- menntuðum kennurum. Verkefnið felur í sér að styðja við listsköpun og menningarstarf ungs fólks, það er að halda listasmiðjur og listkennslu fyrir börn og ungmenni og er dæmi um menningarverkefni sem styður við aukna umhverfisvitund, sjálfbærni og byggir á menningararfi Vestmannaeyja.

10. Þrjú hjörtu – 500.000 kr.
Um er að ræða þrjú hjörtu með bekk. Tvö verða með fasta staðsetningu en eitt færanlegt.

11. Skotveiðifélag Vestmannaeyja – uppsetning á sportingvelli – 500.000 kr.
Skotfélagið hefur undanfarin misseri verið að byggja upp svæðið við Eldfell og lsetja upp aðstöðu fyrir félagsfólk í Herjólfshöllinni. Það sem liggur fyrir er uppsetning á sportingvelli. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru veðurhlífar yfir leirdúfukastar, pallar og grindur sem afmarka skotstefnu á sportingvelli.

12. Lionsklúbbur Vestmannaeyja – 50 ára afmæli – 200.000 kr.
Lionsklúbbur Vestmannaeyja vill hafa áhrif, þann 6. apríl nk. verður klúbburinn 50 ára. Í tilefni þess mun klúbburinn leggja áherslu á þjónustu við eldri borgara hér í bæ. Verkefnið verður fjórþætt:
1) koma verkefninu Karlar í skúrnum á koppinn. 2) styrkja dagdvöl eldri borgara í Vestmannaeyjum. 3) styrkja hollvinasamtök Hraunbúða í Vestmannaeyjum. 4) styrkja félag eldri borgara Vestmannaeyjum.

13. Kvennakór Vestmannaeyja – Vortónleikar – 400.000 kr.
Áætlað er að halda vortónleika í maí 2024 og eðli málsins samkvæmt kostar það nokkurn pening. Greiða þarf stjórnanda kórsins, leigja sal, láta prenta söngskrá og leigja hljóðkerfi, svo fátt eitt sé nefnt.