„Það er gaman að sjá þetta verða að veruleika og okkur hlakkar mikið til að prófa fullvaxin veiðarfæri“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja sem  hefur tekið rannsóknaskipið Bjarna Sæmundsson á leigu í sumar til tilraunaveiða á rauðátu. „Alls eru þetta allt að 10 til 14 dagar sem við skiptum í tvennt, líklega vika í enda maí  og nokkrir dagar í kringum 17. júní.“

Hörður hefur unnið að þessu í fjögur ár og fengið leyfi til veiða á allt að 5000 tonnum af rauðátu. Tilraunaveiðar í mjög smáum stíl hafa lofað góðu og er áætlað magn rauðátu við Vestmannaeyjar og Suðurströndina allt að tíu milljónir tonna sem endurnýjast árlega. „Rauðátan kemur upp á yfirborðið seint á vorin og fram á sumarið. Við notumst við nýjustu tækni með gervihnattamyndum sem sýna útbreiðslu hennar á rauntíma. Búið er að fjárfesta í hátíðnibúnaði sem settur verður um borð í Bjarna og mun hann verða nýttur til að mæla lífríkið efst í sjávarborðinu. Við höfum verið í samvinnu við Norðmenn sem hafa veitt og unnið rauðátu í mörg ár sem skilað hefur góðum árangri.“

Mikil aðstoð Norðmanna

Norðmenn leggja til troll og hlera og veiðafæra- og vinnslusérfræðingar hafa komið að undirbúningi. „Við höfum fengið gríðarlega aðstoð sérfræðinga viða að sem hafa lagt til mikla þekkingu og reynslu.“ segir Hörður sem er þakklátur Vestmannaeyjabæ, Ísfélagi og Vinnslustöð og fleiri fyrirtækjum fyrir að hafa staðið með Þekkingarsetrinu í þessu viðamikla verkefni.

„Í Vestmannaeyjum erum við með allt sem þarf í svona rannsóknir, veiðar og vinnslu. Síðast en ekki síst eru rauðátumiðin allt í kringum Eyjar á meðan Norðmenn þurfa að sækja einn til einn og hálfan sólarhring á miðin. Forsendan hjá okkur er að þetta verði í Vestmannaeyjum,“ segir Hörður sem sér möguleika á enn einni stoðinni í atvinnulífi í Vestmannaeyjum í framtíðinni. „Í þessu eru gífurleg tækifæri í nýjum störfum og þróun og sölu á mjög eftirsóttri og verðmætri vöru.“

Veiðafærin sem notuð verða í sumar koma frá Noregi.