Almannavarnarnefnd Vestmannaeyja hvetur fólk með öndunarfærasjúkdóma til að vera ekki á ferli í Eyjum en töluverð aska hefur fallið þar í morgun. Þá er eigendum búfjár bent á að huga að dýrum sínum. Lögregla segir að nær stanslaus umferð fólks hafi verið um lögreglustöðina í Eyjum í morgun þar sem íbúar eru að sækja sér grímur og gleraugu til að verjast fíngerðri öskunni. Fólk getur einnig sótt slíkt á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og slökkvistöð bæjarins.