Í gærkvöld sigldi Eimskip sína síðustu ferð á Herjólfi milli lands og Eyja eftir þrettán ár í brúnni en nýr rekstraraðili tók við nú í morgun. Eyjafréttir tóku púlsinn á Gunnlaugi Grettissyni sem haldið hefur utan um siglingar Herjólfs undanfarin átta ár.
„Fyrst og fremst mikið þakklæti fyrir að hafa unnið með þessu frábæra samstarfsfólki sem hefur komið að Herjólfsrekstrinu bæði í Eyjum og víðar. Einnig mikið þakklæti til Eimskip að hafa treyst mér fyrir þessu verkefni sl 8 ár,” sagði Gunnlaugur og bætti við. „Samgöngur er Vestmannaeyjum auðvitað mjög mikilvægar. Þessi 13 ár sem Eimskip hefur haft verkefnið á sinni könnu höfum við flutt um 3,2 milljón farþega. Siglingar til Landeyjahafnar hafa gjörbreytt þessu öllu. Auðvitað átti Landeyjahöfn að verða 12 mánaða höfn en staðreyndin því miður er ansi fjarri því í dag. Vonandi mun nýja ferjan nálgast það markmið enda sérhönnuð í þetta verkefni.”
Þá sagðist Gunnlaugur kveðja Eyjarnar í sumar með miklum söknuði. „Ég kveð verkefnið og svo í sumar Eyjarnar með miklum söknuði en um leið óska ég því alls hins besta.”
Eitt af því mikið hefur verið rætt um meðal fólks í Eyjum eru afsláttarkortin og sú inneign sem það á þar. En ýmsar sögur hafa verið á kreiki um afdrif þeirrar inneignar. Aðspurður um málið sagði Gunnlaugur það vera eins og oft með málefni Herjólfs frekar sérstakt og svolítið skemmtilegt. Hið rétta komi hins vegar fram í tilkynningu heimasíðu Sæferða og má lesa hér að neðan.
AFSLÁTTAKORT – ENDURGREIÐSLA
Sæferðir ehf. hafa að beiðni frá Vegagerðinni tekið að sér að endurgreiða viðskiptamönnun út inneignir á afsláttarkortum þar sem með nýjum rekstraraðila verður tekið upp nýtt kerfi hvað afsláttarkjör varðar.
Þeir sem eiga inneign á afsláttkorti eða vilja senda inn fyrirspurn vegna þessa eru beðnir að senda tölvupóst á herjolfur@seatours.is.
Skeytinu þarf að fylgja:
Nafn, kennitala og bankareikningsnúmer fyrir endurgreiðslu.
Opið verður fyrir endurgreiðslu til 31.7.2019 eða í fjóra mánuði en það gildir um þetta eins og margt annað að best er að skella sér í að klára sem fyrst
Rétt er að minna á að ef inneign á afsláttkorti er td. 10.000. kr er raun inneign til endurgreiðslu kr 6.000 þar sem 40% afslátturinn lagðist strax ofan á greidda inneign, þ.e. við kaup á afsláttakorti og með greiðslu kr. 34.500 kr myndaðist inneign kr. 57.500.-
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst