“Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta hófust svokölluð þjóðlendumál og óbyggðanefnd var sett á stofn. Með lögunum þá var eignarland skilgreint og um leið í 1. gr. laganna þá kom fram að allt land sem væri ekki beinum eignarrétti háð teldist “Þjóðlenda” og væri þar með eign íslenska ríkisins.
Síðan hafa hvert málið rekið annað og íslenska ríkið gert kröfur í land á Íslandi og bændur, sveitarfélög o.fl. lýst kröfum á móti. Óbyggðanefnd hefur síðan úrskurðað og málin oftar en ekki farið síðan fyrir dómstóla.
Nú er komið að síðasta þætti í störfum óbyggðanefndar, eyjar og sker við Ísland.
Ber þá svo við að íslenska ríkið gerir kröfu til þess að hluti af Heimaey sem og allar úteyjar og sker við Heimaey, sem hingað til hafa verið talin eign Vestmannaeyjabæjar, heyri undir íslenska ríkið sem þjóðlenda.
Afsöluðu öllu landi í eigu ríkisins til Vestmannaeyjakaupstaðar árið 1960
Þetta telst væntanlega til tíðinda þar sem íslenska ríkið afsalaði árið 1960 öllu landi í eigu ríkisins til Vestmannaeyjakaupstaðar gegn greiðslu kr. 1.000.000,-.
Með þessari kröfu íslenskra ríkisins þá er ríkið annaðhvort að halda því fram að íslenska ríkið hafi ekki vitað hvað það var að gera árið 1960 eða þá að íslenska ríkið hafi aldrei átt þennan hluta Heimaeyjar sem og úteyjarnar þegar að það afsalaði öllu sínu landi til Vestmannaeyjakaupstaðar.
Reikna má með að mál þetta taki langan tíma fyrir óbyggðanefnd og síðan dómstólum en skv. upplýsingum frá óbyggðanefnd er ekki gert ráð fyrir að nefndin úrskurði í þessum málum fyrr en árið 2025. Það er þó mögulegt að málin fari ekki fyrir dómstóla ef niðurstaða óbyggðanefndar verður þannig að allir verði sáttir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst