Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja tók fyrir á fundi sínum í liðinni viku frumathugun á staðsetningum á stórskipakanti í Vestmannaeyjum. Skýrsluna vann Vegagerðin. Skýrslan byggist á því að grjót til uppbyggingar sé aðgengilegt í Vestmannaeyjum og ef svo er ekki raunin verður kostnaður umtalsvert meiri. Forsendur fyrir framlagi frá hafnarbótasjóði byggjast m.a. á fjárhagslegri hagkvæmni framkvæmda.
Frumathugunin er á þremur staðsetningum fyrir stórskipakant í sunnanverðri innsiglingu Vestmanneyjahafnar og samanburður við niðurstöður eldri rannsókna um Eiðið. Í samantekt í skýrslunni segir: Lagt er mat á frátafir við lestun og losun gámaskipa á stálþilskanti á Skansinum og í Gjábakkafjöru. Frátafir við kanta á ytri Skans eða Gjábakkafjöru eru töluvert meiri en við núverandi kanta. Innri Skans gefur sambærileg skilyrði til losunar og lesturnar og núverandi kantar. Einnig er farið yfir niðurstöður fyrri rannsókna á stórskipakanti utan við Eiðið þar sem 500 m brimvarnagarður NNA úr Stóraklifi gefur minnstar frátafir. Þá er lagt mat á kostnað við hverja tillögu.
Í niðurstöðu framkvæmda- og hafnarráðs segir að ráðið telji skýrslu Vegagerðarinnar mjög stórt skref í átt að enn meiri uppbyggingu á hafnarsvæðinu sem mun hafa mikil og jákvæð áhrif á atvinnulífið í Eyjum. Ráðið horfir til þess að frátafir á Eiðinu eru töluvert minni en í Gjábakkafjöru og hugnast ráðinu því að halda áfram með vinnu tengda Eiðinu enda er það í návígi við núverandi athafnasvæði hafnarinnar. Eins og fram hefur komið er kostnaðurinn háður því að nýtanlegt grjót finnist í Vestmannaeyjum og bindur ráðið vonir við að sú grjótleit sem nú er í gangi á Eldfellshrauni skili tilætluðum árangri. Ráðið leggur áherslu á að til þess að hægt sé að fara í framkvæmd á Eiðinu þarf að auka umsvif og tekjur hafnarinnar með nýjum aðilum til viðbótar við þá sem fyrir eru.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst