„Á laugardagskvöldið var hið árlega lundaball haldið með pomp og pragt í Alþýðuhúsinu og sló aðsóknin öll met, um 170 manns mættu. Salurinn var þéttsetinn en það virtist síður en svo skyggja á gleði samkomugesta,“ segir í Fréttum 5. nóvember 1987 um Lundaball sem Helliseyingar héldu það haustið. Lundaball sem markaði tímamót í sögu Lundaballa bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum í mat, allri umgjörð, reisn og glæsileik sem ekki hafði áður sést. Varð fyrirmynd annarra lundaballa sem ekkert hefur náð sömu hæðum en það gæti breyst þann 25. september því nú er komið að Helliseyingum að halda Lundaball sem verður haldið með áður óþekktum glæsibrag og reisn.
„Helliseyingar sáu um ballið í þetta skiptið og var Svavar pípari Steingrímsson veislustjóri. Stjórnaði hann af röggsemi, jafnvel svo að aðrir reyndari í faginu falla í skugga þegar framgöngu hans er minnst. Tókst honum að halda mönnum við efnið svo unun var að fylgjast með og ef á þurfti að halda voru menn beðnir um að þegja og var því undantekningarlaust hlýtt. Fór ekki á milli mála hver stjórnaði.
Sagðar voru gamansögur, fjöldasöngur undir stjórn Árna Johnsen, sem virðist eiga keppinaut á Indlandi, en meira um það síðar. Þeir bræður Páll og Gísli Steingríms sungu gamalt blúslag svo sæluhrollur fór um gamla blúsara. Svavar þakkaði nú fyrir það að söng þeirra loknum að vera ekki skyldari þeim en raun ber vitni, en þeir þrír eru mæðrasynir.
Já, það var þétt setinn bekkurinn í Alþýðuhúsinu, geislandi fjör og græskulaust grín og smá skot gengu á milli eyja, en það er um úteyjar eins svo margt annað, hverjum sýnist sinn fugl fagur eins og þar stendur. Þessir smáhrekkir náðu jafnvel inn á kvennaklósettið, en hver átti upptökin að því, spyr sá sem ekki veit,“ segir um þetta sögufræga lundaball.
Til eru frábærar myndir sem Guðmundur Sigfússon tók. Hér kemur fyrsti skammtur.
Árni Johnsen, Gaui bæó og Halldór Sveinsson veifa barómetum af dýrari gerðinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst