Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur opnað nýja upplýsingasíðu um íþróttaiðkun Íslendinga, þar sem saman eru tekin gögn frá fjölda aðila. Markmiðið er að veita heildaryfirsýn yfir þróun íþrótta og hreyfingar og gera almenningi kleift að nálgast samanburðarhæfa tölfræði á einum stað.
Samkvæmt samantekt ársins 2024 er knattspyrna langvinsælasta íþrótt landsmanna, með 32.108 skráða iðkendur. Næst kemur golf með 28.045, fimleikar með 16.182, hestaíþróttir með 13.944 og körfuknattleikur með 10.111 iðkendur.
Ráðuneytið segir mikilvægt að fylgjast með þróun íþróttaiðkunar, bæði vegna heilsueflingar og samfélagslegra áhrifa.
Nýjustu mælingar frá 2025 sýna að einungis 27% barna í 6. bekk ná ráðlögðum 60 mínútum af daglegri hreyfingu alla daga vikunnar. Í 10. bekk er hlutfallið 20%.
Þrátt fyrir takmarkaða hreyfingu meta flest börn heilsu sína góða. 90% barna í 6. bekk segjast vera við góða eða mjög góða heilsu. Í 10. bekk eru 82% drengja og 72% stúlkna sama sinnis.
Konur eru 40,6% skráðra íþróttaiðkenda en karlar 59,4%. Íþróttaiðkun kvenna minnkar verulega eftir 18 ára aldur: aðeins 15,4% allrar íþróttaiðkunar er meðal kvenna 18 ára og eldri, samanborið við 25,1% hjá 17 ára og yngri. Munurinn hjá körlum er minni. 31,1% iðkenda eru drengir 17 ára og yngri, en 28,3% karlar 18 ára og eldri.
Þótt Ísland standi vel í alþjóðlegum samanburði á sviði kynjajafnréttis eru enn áskoranir, meðal annars í ráðandi stöðum innan íþróttahreyfingarinnar og meðal afreksþjálfara.
Nýja upplýsingasíðan safnar saman tölfræði frá ýmsum aðilum og gerir það auðveldara fyrir þá sem vinna að stefnumótun, skipulagi eða rannsóknarverkefnum að nálgast og bera saman gögn.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst