Síldveiðar úr íslensku sumargotssíldinni hafa gengið þokkalega hjá Ísfélaginu á yfirstandandi vertíð, að sögn Eyþórs Harðarsonar, útgerðarstjóra félagsins. Veiðarnar hófust um 10. nóvember og nú er verið að landa síðasta farminum fyrir jólafrí. Veiðarnar hafa að mestu farið fram vestur af landinu, eða um 80–100 sjómílur vestur af Faxaflóa.
Ísfélagið hefur fiskað tæp 12.000 tonn af síld á þessari vertíð og hefur allur aflinn verið unninn til manneldis í frystihúsi félagsins í Vestmannaeyjum. Að sögn Eyþórs hefur vinnslan gengið vel. Síldin hefur verið bæði heilfryst og flökuð, allt eftir óskum kaupenda, og virðist eftirspurn eftir afurðunum vera ágæt.
Skip Ísfélagsins, Heimaey og Sigurður, hafa stundað síldveiðarnar á vertíðinni og er þeim nú lokið. „Næstu verkefni skipanna eru einn kolmunnatúr eftir áramót, en að því loknu er ekkert annað í stöðunni en að vona það besta með komandi loðnuvertíð,” segir Eyþór að endingu.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst