FÍV hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2025 – Áhersla var lögð á vellíðan og samfélagslega ábyrgð
„Haustönnin sem nú er að ljúka var ein af þessum önnum sem maður finnur í maganum að hafi verið öflug, með krafti í nemendum og miklu lífi í skólanum, bæði í kennslustundum og utan þeirra,“ sagði Thelma Björk Gísladóttir, aðstoðarskólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum í ræðu sinni við útskrift skólans föstudaginn 19. desember sl..
Thelma sagði að haustönnin hafi verið bæði viðburðaríka og kraftmikla. Alls stunduðu yfir 270 nemendur nám við skólann á önninni, á fjölbreyttum námsleiðum og í ólíkum áföngum. Skólastarfið einkenndist af fjölbreytni, metnaði og sterkri samkennd innan skólans.
Stærstu tíðindin á önninni eru að FÍV hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2025. Thelma sagði viðurkenninguna mikilvæga fyrir skólann og samfélagið í heild sinni líka fyrir nemendur, starfsfólk, foreldra nemenda og samstarfsaðila. Verðlaunin staðfesti faglegt og nýstárlegt starf sem fram fer í skólanum og séu jafnframt hvatning til áframhaldandi þróunar náms og kennslu.

Félagslíf nemenda var að sögn Thelmu öflugt á önninni. Í upphafi hausts var haldinn nýnemadagur þar sem kosningar í Nemendafélagið fóru fram, auk þess sem nýnemaball var haldið í sal skólans. Þá hafi viðburðir á borð við FÍV Cup, softball-mót og spilakvöld félagsins sett skemmtilegan svip á skólastarfið og styrktu skólabrag.
Áhersla var lögð á vellíðan og samfélagslega ábyrgð, meðal annars með þátttöku í Gulurm september og Bleikum október. Slík verkefni undirstriki að hlutverk skólans snýst ekki eingöngu um nám heldur einnig um gildi, forvarnir og samstöðu.
Skólabragurinn var einnig í fyrirrúmi þegar starfsfólk skólans skreytti hann í hrekkjavökustíl í lok október og kom nemendum á óvart. Uppákoman vakti mikla gleði og sýndi mikilvægi þess að skóli sé hlýr og lifandi vettvangur.
Sköpun og erlent samstarf
Sköpun og miðlun blómstruðu á önninni að mati Thelmu. Nemendur í myndlist unnu fjölbreytt verkefni og ritstjórn skólablaðsins FÍVan gaf út glæsilegt blað í annarlok. Þá hafi Gettu betur-hópur skólans æft af krafti og keppir í janúar, verkefni sem eflir samvinnu, seiglu og metnað nemenda.
Erlent samstarf setti einnig sterkan svip á önnina. Í september tók skólinn á móti nemendum og kennurum frá Ítalíu og Spáni í tengslum við verkefni um vatnsfótspor og umhverfismál. Í nóvember tóku nemendur og kennarar þátt í Erasmus-verkefni í Pisa þar sem unnið var með loftslagsmál og sjálfbærni. Þá fóru nemendur í dönsku áfanga í námsferð til Kaupmannahafnar og hópur nemenda tók þátt í árlegri göngu yfir Fimmvörðuháls.
Útskriftarnemendur sem nú ljúka námi við skólann eru fjölbreyttur hópur sem hefur farið ólíkar leiðir, en sameiginlegt þeim öllum er seigla, metnaður og ábyrgð. „Þið standið hér í dag vegna þess að þið gáfust ekki upp, sýnduð seiglu og létuð verkin tala – og þið eigið fyllilega skilið að vera stolt af afrekum ykkar,“ sagði Thelma Björk að lokum.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst