Í lok árs er við hæfi að rifja upp það helsta sem kemur upp í hugann þegar litið er til baka á vettvangi bæjarmála. Hvernig hefur okkur bæjarfulltrúum tekist til og er eitthvað sem betur hefði mátt fara? Þetta eru spurningar sem við þurfum að velta upp reglulega.
Árið 2025 sem er að ljúka hefur verið annasamt og ekki vantar verkefnin sem bæjarfélagið þarf að glíma við. Undirritaður hefur setið í bæjarstjórn og bæjarráði þetta kjörtímabil þar sem verkefnin eru fjölbreytt og af ýmsum toga. Það hefur komið mér á óvart hve stór hluti verkefna bæjarráðs/bæjarstjórnar fer í hagsmunagæslu gagnvart ríkisvaldinu, hvort sem það snýr að samgöngum við Vestmannaeyjar eða lögbundnum skyldum sem færðar hafa verið til sveitarfélaga á síðustu árum.
Þegar rifjuð eru upp helstu verkefni og viðfangsefni sem komu á borð bæjaráðs og bæjarstjórnar á árinu 2025 er af mörgu að taka.
Ný vatnslögn sem verður lögð til Eyja sumarið 2026 er gríðarlega stórt mál fyrir sveitarfélagið og mikil vinna framundan við að fjármagna verkið. Þar þarf ríkið að koma mun sterkara inn.
Samgöngumálin við Vestmannaeyjar eru og verða ávallt fyrirferðarmikil á vettvangi bæjarstjórnar og vonandi finnst lausn á hönnun Landeyjarhafnar svo hún þjóni upphaflegu hlutverki sínu. Áfram þarf að berjast fyrir áætlunarflugi yfir veturinn og þar er verk að vinna við að lengja tímabilið og fjölga ferðum. Skýrslan um fýsileika jarðganga milli lands og Eyja leit nýlega dagsins ljós, Í framhaldinu hefur verið stofnað félagið Eyjagöng sem hefur farið af stað með fjármögnun vegna rannsókna sem þurfa að eiga sér stað til að geta áætlað kostnað við gerð jarðganga.
Áralöng barátta fyrirtækja í Eyjum og bæjaryfirvalda fyrir bættu raforkuöryggi skilaði sér með lagningu tveggja sæstrengja, VM4 og VM5 til Eyja sl. sumar. Þetta mál er mun stærra og mikilvægara, en fólk virðist almennt gera sér grein fyrir og mikil vinna liggur þar að baki.
Lagning ljósleiðaranets í Eyjum varð að veruleika á árinu og að endingu keypti Míla þær fjárfestingar sem Vestmannaeyjabær hafði lagt í verkefnið. Ef við hefðum ekki ráðist í þetta verkefni á sínum tíma, fullyrði ég að ljósleiðari væri ekki komin í öll hús í Eyjum.
Vestmannaeyjar hafa til áratuga státað sig af góðri aðstöðu til íþróttaiðkunar og sífellt bætt í hana. Miklar endurbætur á Hásteinsvelli með lagningu á gervigrasi sl. sumar auk flóðlýsingar á vellinum sem er í undirbúningi. Miklar endurbætur og stækkanir á Íþróttahúsinu eru í burðarliðnum. Hreinsi- og dælukerfin í sundlauginni eru löngu komin á tíma og þörf á endurbótum sem nú fara fram.
Kröfulýsing ríkisins á Heimaey og úteyjum fór illa í okkur Eyjamenn. Málið endaði nokkrum dögum fyrir jól með fullnaðarsigri okkar. Ríkissjóður seldi Vestmannaeyjabæ Heimaey ásamt öllum úteyjum, dröngum og skerjum með afsali 23. ágúst árið 1960 en áður hafði Alþingi með lagasetningu samþykkt söluna. Þessi málarekstur af hálfu ríkisins var með ólíkindum frá upphafi til enda.
Atvinnulífið hefur blómstrað í Eyjum og hefur uppbygging Laxeyjar verið hreint ótrúleg á okkar mælikvarða. Þrátt fyrir loðnubresti á síðustu árum sem hefur mikil áhrif þá hefur atvinnustigið í Eyjum verið hátt. Sjávarútvegsfyrirtæki á landsvísu hafa staðið í varnarbaráttu vegna hækkandi gjaldtöku af hálfu ríkisins sem skilar litlu, en allir tapa þegar uppi verður staðið.
Í maí 2025 var opnað glæsilegt sérinnréttað fágætissafn í kjallara Safnahússins. Fágætisafnið varð að veruleika af völdum höfðinglegra bókagjafa Ágústs Einarssonar til minningar um föður sinn Einar Sigurðsson athafnamann frá Heiði. Með opnun þess var loks hægt að gera safn Kjarvals málverka í eigu Vestmannaeyjabæjar sýnileg almenningi. Starfsemi fágætissafnsins hefur vakið athygli á landsvísu og aðsókn fram úr björtustu vonum.
Vestmannaeyjahöfn er og verður lífæð þessa samfélags. Mikilvægt er að byggja upp og viðhalda þeirri aðstöðu sem er til staðar. Mikilvæg verkefni eins og stytting Hörgaeyrargarðs er framundan. Undirbúningur og frekari rannsóknir á stórskipakanti úti fyrir Eiðinu er mikilvægt verkefni sem þarf að sinna. Þar spilar ríkið stóran þátt hvað fjármögnun varðar en samgönguáætlun til næstu ára og áratuga sem nú er til umfjöllunar á Alþingi gefur ekki miklar vonir um aðkomu ríkisins á næstu árum.
Grunnskóla- og leikskólamálin eru fjárfrekustu rekstrareiningarnar hjá bæjarfélaginu og getum við státað af góðu og faglegu starfi sem þar fer fram. Hér er blómlegur framhaldsskóli sem vonandi fær að halda fjárhagslegu sjálfstæði þrátt fyrir hugmyndir um aukna miðstýringu hjá menntamálaráðherra.
Eins og sést á upptalningunni þá er ógerlegt að gera grein fyrir öllum þessum málum í einni grein. Ef farið er í gegnum fundargerðir bæjarstjórnar og ráða geta bæjarbúar kynnt sér málin betur. Ef farið er inn á vestmannaeyjar.is þá er auðveld að finna þar fundargerðir á forsíðu. Þá er sjálfsagt að hafa sambandi við bæjarfulltrúa D-listans ef eitthvað þarfnast frekari skýringar.
Mannlífið í Eyjum er magnað. Við höfum eflaust mótast af umhverfinu og þurft að berjast fyrir tilvist okkar eins og flest önnur byggðarlög á landsbyggðinni. Í þeirri baráttu skiptast á skyn og skúrir. Stundum finnst okkur við komast áfram um tvö skef og skömmu síðar eitt skref til baka. Það gerist því miður ósjaldan að við komumst ekki til eða frá Landeyjahöfn. Slík staða veldur af eðlilegum ástæðum reiði hjá bæjarbúum og þeim sem sækja Eyjarnar heim. Það truflar einnig nauðsynlega markaðssetningu á Vestmannaeyjum.
Áhugi almennings á bæjarmálum er ekki mikill hér í Eyjum. Ég fæ sjaldan samtöl eða pósta um afgreiðslur mála í bæjarráði eða bæjarstjórn. Eyjafréttir hafa ekki áhuga á að fjalla um málefnin umfram það sem kemur í fundargerðum og birta úrdrætti úr þeim. Tígull fjallar ekkert um bæjarmálefnin sem fara fram í ráðum og nefndum. Bæjarfulltrúar eru ekki krafðir um svör hvers vegna farið er ein leið frekar en önnur og þar af leiðandi verður áhugi almennings eftir því.
Samstarf meiri og minnihluta bæjarstjórnar hefur gengið vel á tímabilinu að mörgu leiti. Ég hef þá staðfestu trú að þannig vinnum við bæjarfélaginu mest gagn. Við sem skipum minnihluta bæjarstjórnar getum verið stolt af verkum okkar fólks í ráðum og nefndum þar sem við höfum látið hag bæjarfélagsins ráða öðru fremur. Vonandi uppskerum við traust með þeirri vinnu til framtíðar.
Þegar ég var ungur og var að byrja að vinna í frystihúsunum – þá var veganestið og skilaboðin frá foreldrunum að vera duglegur og stundvís. Ekkert var betra en að heyra frá foreldrum að verkstjóri hrósaði manni fyrir þessa kosti. Í sveitarstjórnarmálunum er erfiðara fyrir almenning að meta hver er duglegur og hver sinnir störfum sínum sem best fyrir bæjarbúa. Á það að mælast í hve margir “statusar” eru birtar á facebook eða í fjölda greina sem birtar eru hjá Eyjamiðlum? Ég hef ekki mikla þolinmæði fyrir þannig fólki sem vill bara vera en ekki gera ! Almennt leiðist mér fólk sem kvartar og kveinar yfir verkum annara en hefur ekkert sjálft til málanna að leggja. Við þurfum fólk í sveitarstjórn sem hefur getu og nennu til að vinna fyrir sveitarfélagið af hugsjón og ástríðu. Vonandi tekst að velja þannig fólk fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í vor á D-lista Sjálfstæðisflokksins.
Óska Eyjamönnum nær og fjær gleðilegs nýs árs!
Eyþór Harðarson
bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst