Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Vestmannaeyjabæjar var tekið fyrir erindi vegna umsóknar um byggingarleyfi fyrir húsnæði að Strandvegi 65.
Félagið SV65 ehf. sótti um leyfi til breyttrar notkunar á 2. og 3. hæð hússins. Þar var áður líkamsræktarstöð, en fyrirhugað er að breyta rýmunum í níu vinnustofur. Gengið verður inn í vinnustofurnar um stiga frá 1. hæð.
Í hverri vinnustofu er gert ráð fyrir eldunaraðstöðu auk salernis með sturtu. Jafnframt er áformað að bæta svölum við vinnustofurnar. Fram kemur í fundargerðinni að heildarflatarmál húsnæðisins sé 1.032 fermetrar. Niðurstaða fundarins var að erindinu var frestað og því vísað til athugasemda.