Vara við áhrifum samgönguáætlunar
20240208 143025 Hofn Snjokoma Lagf
Vestmannaeyjahöfn. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS

Samgönguáætlun fyrir árin 2026–2030 var kynnt á Alþingi í vikunni. Í kjölfar umfjöllunar málsins í framkvæmda- og hafnarráði Vestmannaeyja hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja átt fundi með þingmönnum Suðurkjördæmisins og komið á framfæri athugasemdum sem lúta sérstaklega að stöðu og framtíð hafnarmála í bæjarfélaginu.

Í umfjöllun ráðsins var lögð sérstök áhersla á þá þætti samgönguáætlunarinnar sem snúa að Vestmannaeyjahöfn. Hafnastjóri mun undirbúa formlega umsögn í samráði við bæjarráð þegar áætlunin fer í umsagnarferli, segir í fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs.

Þessu tengt: Bæjarráð gagnrýnir samgönguáætlun

Í niðurstöðu sinni ítrekar framkvæmda- og hafnarráð verulegar áhyggjur af áætluninni og bendir á að hún muni hafa mikil áhrif á nauðsynlega uppbyggingu hafnarinnar, sem sé lykilforsenda fyrir áframhaldandi þróun atvinnulífs í Vestmannaeyjum.

Ráðið telur enn fremur að ríkja metnaðar- og áhugaleysi hjá stjórnvöldum gagnvart uppbyggingu stórskipakants í Vestmannaeyjahöfn. Slík framkvæmd hafi verið til umræðu í mörg ár og ekki verið talin þjóðhagslega hagkvæm fyrr en nýlega. Þrátt fyrir það séu rannsóknir vegna stórskipakants ekki inni í drögum að samgönguáætlun, þrátt fyrir mikla uppbyggingu í samfélaginu sem kalli á aukna innviðauppbyggingu.

Þá ítrekar ráðið áhyggjur sínar vegna ekjubrúar á Básaskersbryggju, sem sé komin til ára sinna. Óviðunandi sé að fresta þeirri framkvæmd til ársins 2029 þar sem um sé að ræða mikilvægt öryggismál.

Breytingar á kostnaðarhlut ríkisins í hafnarframkvæmdum eru jafnframt sagðar stór ákvörðun sem geti haft veruleg áhrif á rekstur Vestmannaeyjahafnar. Ráðið bendir á að á undanförnum áratugum hafi litlir styrkir verið veittir til uppbyggingar og viðhalds hafnarinnar og telur að hún hafi setið eftir miðað við aðrar hafnir landsins.

Að lokum er bent á að nýr dráttarbátur sé ekki í drögum að samgönguáætluninni, þrátt fyrir að núverandi bátur hafnarinnar hafi verið tekinn í notkun árið 1998 og eigi sífellt erfiðara með að sinna stærri skipum sem nú sækja höfnina heim.

Bæjarstjórn tekur undir áhyggjur af samgönguáætlun – varar við skerðingum og seinkunum

Samgönguáætlunin var einnig til umræðu á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja, í framhaldi af umfjöllun framkvæmda- og hafnarráðs um málið. Innviðaráðherra mælti fyrir áætluninni á Alþingi sl. mánudag og í kjölfarið áttu bæjarfulltrúar fund með þingmönnum Suðurkjördæmis þar sem farið var yfir þá þætti áætlunarinnar sem snúa að Vestmannaeyjum.

Bæjarfulltrúar lýstu yfir víðtækum áhyggjum af samgönguáætluninni eins og hún liggur fyrir og gagnrýndu sérstaklega áætlaðar skerðingar til reksturs ferja og þar með reksturs Herjólfs. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við fjármagn sem ætlað er til dýpkunarmála í Landeyjahöfn, sem talið er ófullnægjandi til að tryggja áreiðanlegar samgöngur.

Enn fremur var gagnrýnt að nýrri ekjubrú fyrir Herjólf sé frestað um mörg ár, auk þess sem bent var á ýmsa þætti sem snúa að hafnarmálum í Vestmannaeyjum. Þar á meðal að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni til rannsókna á stórskipakanti í Vestmannaeyjahöfn, að framkvæmdum við Básaskersbryggju sé frestað, framlög til nýs lóðsbáts sett á bið og að lagt sé til að framlag ríkisins til hafnarbótasjóðs verði skert verulega.

Síðast en ekki síst gerðu bæjarfulltrúar athugasemdir við að Herjólfur sé skilgreindur sem almenningssamgöngur í áætluninni. Slík skilgreining sé að þeirra mati ekki ásættanleg þar sem um sé að ræða þjóðveg og lykilinnviði fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum.

Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar er tekið undir áhyggjur bæjarráðs af samgönguáætluninni og bent á að óbreytt myndi hún leiða til skerðingar á framlögum og seinkunar framkvæmda sem kæmu niður á Vestmannaeyingum, meðal annars með skertri þjónustu.

Að lokum skorar bæjarstjórn Vestmannaeyja á ráðherra og þingmenn að tryggja að tekið verði tillit til þeirra athugasemda sem sveitarfélagið hefur komið á framfæri og segir málinu verða fylgt áfram eftir.

Nýjustu fréttir

Vara við áhrifum samgönguáætlunar
Í dag eru 53 ár frá upphafi Heimaeyjargossins
Bærinn í samstarf við Markaðsstofu Suðurlands
Alex Freyr Hilmarsson íþróttamaður Vestmannaeyja
Tvíþætt staða orkuskipta
Netöryggisfræðsla fyrir foreldra grunn- og framhaldsskólanemenda
Áskriftarkort sundlaugagesta framlengd
Eyjarnar landa fyrir austan
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.