Undirbúningstímabilið fyrir sumarið er á fullu og það sem af er hefur árangur karlaliðsins verið góður. Í Lengjubikarnum situr liðið í þriðja sæti síns riðils með tvo sigra og eitt tap. ÍBV vann stórsigur 5:0 á móti Víkingi Ólafsvík og sigraði einnig lið Stjörnunnar 2:1. Tapið kom á móti Val síðastliðna helgi en Valur vann 4:1. Tveir leikir eru eftir í riðlakeppninni, á móti Vestra þann 8. mars og síðan á móti Fjölni þann 14. mars.
Víðir Þorvarðarson og Felix Örn Friðriksson hafa skorað sitthvor tvö mörkin fyrir ÍBV í keppninni en enn vantar nokkra leikmenn svo hópurinn sé fullmannaður. Munar þar mest um Gary Martin en hann er væntanlegur til Vestmannaeyja nú í mars.
Jonathan Glenn framherji ÍBV sleit krossband í upphafi árs. Glenn hafði æft vel í vetur og var þetta áfall fyrir hann og félagið. Ætla má að hann verði frá í a.m.k 3-4 mánuði til viðbótar.
Kvennalið ÍBV hefur leik í Lengjubikarnum 14. mars nk. þegar liðið mætir Keflavík. Miklar breytingar hafa orðið á kvennaliði ÍBV frá því í fyrra og verður áhugavert að sjá hvernig liðið kemur til leiks.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst