Nú standa yfir framkvæmdir við lagningu tveggja nýrra rafstrengja frá landi til Eyja. Talsvert jarðrask er á Nýja hrauni vegna framkvæmdanna og hafa nokkrir áhyggjufullir bæjarbúar haft samband við ritstjórn Eyjafrétta vegna þessara jarðvegsframkvæmda.
Að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets eru framkvæmdir við lagningu jarðstrengshluta Vestmannaeyjalínu 4 og 5 í Vestmannaeyjum í fullum gangi.
„Strengirnir munu liggja frá Gjábakkafjöru og að tengivirki Landsnets við Skansveg, um 1,5 km leið. Lagðir hafa verið 2 af þeim 4 strengleggjum sem fyrirhugaðir eru í Vestmannaeyjum og jarðvinna við strengskurð hinna tveggja langt komin. Áætlað er að framkvæmdum ljúki í september. Lagningu jarðstrengja fylgir óhjákvæmilega jarðrask á meðan á framkvæmdum stendur en lögð er áhersla halda því í lágmarki og endurnýta, eins og kostur er, núverandi gróður og jarðveg við yfirborðsfrágang. Verkið er unnið í góðri samvinnu við Vestmannaeyjabæ,” segir Steinunn í samtali við Eyjafréttir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst