Tvær einkaflugvélar rákust saman á flugi við Vestmannaeyjar í gær. Flugmaður og farþegi voru í annarri vélinni en aðeins flugmaður í hinni.
Víkurfréttir greina frá þessu. Segir í umfjölluninni að báðar vélar hafi verið flughæfar eftir að hafa rekist saman á flugi, og þeim hafi verið lent á Keflavíkurflugvelli. Flugvélarnar eru báðar af gerðinni Kingair B200 og skráðar erlendis. Til stóð að fljúga þeim ferjuflugi til Norður-Ameríku.
Enn fremur segir í frétt Víkurfrétta að rannsóknarnefnd samgönguslysa sé með atvikið til rannsóknar. Fyrst um sinn hafi flugmenn flugvélanna þó ekki tilkynnt um atvikið. Það hafi ekki verið gert fyrr en þjónustuaðilar á Keflavíkurflugvelli tóku eftir skemmdum sem hlutust af árekstrinum. Þá var kölluð til lögregla og fulltrúar Rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Vélarnar standa enn á Keflavíkurflugvelli en frekari upplýsingar er ekki að hafa um flugatvikið, sem sagt er alvarlegt, segir í frétt Víkurfrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst