Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í síðustu viku kom fram tillaga frá Margréti Rós Ingólfsdóttur, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á þá leið að bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykki að veita ÍBV-íþróttafélagi styrk að upphæð 20 milljón króna til kaupa á hitalögnum til að leggja undir Hásteinsvöll. Bæjarstjóra yrði falið að gera verk- og samstarfssamning um verkið þar sem ábyrgð Vestmannaeyjabæjar annars vegar og ÍBV-íþróttafélags hins vegar væri skilgreind og hlutverk og ábyrgð hvors um sig sett niður.
Niðurstaða Páls Magnússonar, forseta bæjarstjórnar var að tillaga Margrétar Rósar væri ekki tæk þar sem hún fæli í sér viðauka við fjárhagsáætlun. Lagði forseti til að tillögunni yrði vísað til bæjarráðs.
Áður en til atkvæðagreiðslu kom voru lagðar fram þrjár bókanir. Sú fyrsta frá öllum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks. Þar sagði:
„Málið er búið að fara í gegnum bæjarráð sem hefur vísað málinu áfram til bæjarstjórnar. Það er málinu ekki til hagsbóta að því sé vísað aftur til baka. Eðlilegast væri að bæjarfulltrúar allir myndu fá að greiða atkvæði um málið, annað lítur út eins og einræðistilburðir í stað þess lýðræðis sem núverandi meirihluti státaði sig af í orði en greinilega ekki borði.“
Að loknu fundarhléi var lögð fram bókun bæjarfulltrúa E og H lista, þar sem segir:
„Það eru ólýðræðisleg og forkastanleg vinnubrögð að leggja tillögu um 20 milljón króna fjárútlát fyrir bæjarstjórn sem aðeins minnihluti bæjarstjórnar hefur séð fyrir fundinn og fylgdu ekki fundargögnum. Slíkt er mjög óábyrg meðferð almannafjár. Þetta er heldur ekki í samræmi við bæjarmálasamþykkt er varðar það að bæjarfulltrúar geti kynnt sér þau gögn sem liggja fyrir fundinum til ákvarðanatöku svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun. Því er eðlilegt að málið fari aftur fyrir bæjarráð þar sem bæjarráð var einróma í ákvörðun sinni um málið og fulltrúar allra framboða samþykktu málið.“
Að endingu kom fram bókun Hildar Sólveigar Sigurðardóttur, bæjarfulltrúa D listans þar sem sagði:
„Augljóst er af framkomnum gögnum að kostnaðargreining, mat á nauðsyn og áhrifum vegna hitalagna undir Hásteinsvöll af hálfu Vestmannaeyjabæjar annars vegar og ÍBV íþróttafélags hins vegar er umtalsvert ólík. Verkefnið í heildina var áætlað 280-300 milljónir og var ég tilbúin að styðja þessa tillögu og styrkveitingu sem nemur um 7% aukningu á þeirri fjármögnun til að nýting fjárfestingarinnar til framtíðar verði betri. Undirrituð hefði viljað taka þá lýðræðislegu leið og kjósa um málið hér af 9 bæjarfulltrúum og mótmæli harðlega þeirri ákvörðunarfælni og andlýðræðislegu ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar að vísa málinu aftur til bæjarráðs sem mun einungis lengja feril málsins að óþörfu.“
Í samtali við Eyjafréttir segir Margrét Rós aðspurð um hvað hafi vakað fyrir henni að bera upp tillöguna segir hún að hún hafi kynnt sér málið vel, hringt símtöl og sent tölvupósta víðsvegar um landið til að afla sér upplýsinga.
„Þið verðið að hafa lagnir undir vellinum segja allir sem til þekkja. Mikið ber í milli þeirra kostnaðartalna sem bærinn hefur aflað og gagna frá ÍBV íþróttafélagi. Í málinu liggur fyrir beiðni frá ÍBV til kaupa á lögnum fyrir 20 milljónir og ég tel að ef ÍBV treystir sér til þess að græja verkefnið í samstarfi við bæinn fyrir þennan pening, eins og virðist vera, þá skuli á það reyna.
Ég bar því upp þessa tillögu til þess að bæjarstjórn öll, ekki einungis bæjarráð, myndi fá að kjósa um málið. Ég er vonsvikin með að svo varð ekki og enn vonsviknari með að þeir bæjarfulltrúar sem ekki sitja í bæjarráði hafi ekki barist fyrir því að kosið yrði um tillöguna. Allir bæjarfulltrúar hafa haft sömu tækifæri og tíma og ég til þess að kynna sér málið og taka afstöðu. Það voru einungis fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem voru tilbúnir til þess að kjósa og að klára málið.“
Nú afgreiddi meirihlutinn tillögu þína með að vísa henni til umfjöllunar í bæjarráði. Hefur þú einhverjar vonir um að bæjarráð verði við tillögunni?
Tel það hæpið enda hefur bæjarráð áður synjað þessari sömu tillögu, segir Margrét að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst