Arna Þyrí Ólafsdóttir er 26 ára hárgreiðslumeistari á hárgreiðslustofunni Sjampó. Arna Þyrí flutti aftur til Eyja nú í sumar eftir nokkur ár í Reykjavík. Áður en Arna Þyrí byrjaði á Sjampó vann hún meðal annars hjá hárgreiðslustofunum Blondie í Garðabænum og Bold í Kópavogi.
Við ræddum við Örnu Þyrí og fengum að forvitnast aðeins um hártískuna í vetur.
Hvað er vinsælt í hári þessa dagana ? bæði þegar kemur að lit og klippingu
Hjá konum myndi ég segja að þunnur toppur eða svokallaður barbí toppur væri vinsælastur í vetur. Hjá þeim sem eru með mikið hár eru styttur við andlitið einnig vinsælar, en hjá konum sem eru með fíngert hár þá er BOB klippingin mjög vinsæl. Litirnir sem eru mest í tísku núna eru hlýir ljósir tónar og svona dempað ljóst hár. Hjá dökkhærðum þá er súkkulaði brúnn vinsælastur. Einnig er í tísku hjá þeim sem eru byrjaðir að grána að leyfa gráa litnum svolítið að njóta sín, fá sér dökkar og ljósar strípur í band og hafa gráa litinn með.
Þegar kemur að herrunum þá er svolítið allt í tísku, það er alls konar í gangi þar. Bæði sítt en einnig snoðað. Svo eru allskonar raksturs aðferðir vinsælar. Karlmenn eru orðnir áhugasamari um hárið á sér og vita margir hverjir orðið ótrúlega mikið.
Hvers konar greiðslur myndir þú segja að væru vinsælar núna í vetur og fyrir jólin?
Það er klárlega blásið hár eða svokallað ,,blowout” útlit og stór og mikið hár. Einnig er mjög vinsælt að vera með hárið sleikt aftur, annað hvort í tagli eða á bak við eyrun. Svo er líka bara vinsælt að vera með hárið náttúrulegt og flæðandi og vinna með sína eigin liði með því að klípa hárið upp með krullukremi.
Hvað er í persónulegu uppáhaldi hjá þér þegar kemur að hári?
Mér finnst gaman að greiða og er mikið fyrir fléttur, mér finnst þær mjög skemmtilegar, bæði í brúðar- og fermingargreiðslum. Svo hef ég einnig gaman að því að gera litanir og breytingar. Það er alltaf gaman þegar fólk treystir manni fyrir hárinu á sér.
Hvað ber að hafa í huga varðandi umhirðu hársins þegar farið er að kólna úti?
Gott er að setja svokallaða ,,leave in” hárnæringu í hárið. Oft á veturna getur hárið verið svolítið rafmagnað og þá er flott að setja þessa næringu í til þess að róa hárið. Einnig er gott að nota alltaf hitavörn áður en notuð eru tæki eins og hárblásara eða hármótunartæki.
Hvernig er stemningin fyrir komandi jólavertíð?
Við erum mjög spenntar, jólavörunar eru farnar að streyma inn og það er góð stemning á Sjampó. Við munum klæðast kjólum frá Kubune nú í nóvember og desember og ætlum að fara lita og klippa okkur og vera fínar áður en að vertíðin byrjar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst