Norska uppsjávarskipið Eros er nú við löndun í Eyjum. Að sögn Páls Scheving Ingvarssonar, verksmiðjustjóra FES er um að ræða 1700 tonna kolmunnafarm sem landað er hjá Ísfélaginu.
„Við erum að starta verksmiðjunni eftir töluverðar endurbætur og því gaman að sjá að hvernig þetta gengur,” segir hann. Þetta verður ekki eina erlenda skipið sem landar hjá Ísfélaginu í vikunni.
„Á morgun kemur skoska uppsjávarskipið Pathway inn til löndunar hjá okkur,” segir Páll, en í fyrra gekk Ísfélagið frá kaupum á þessu skipi. ,,Þeir eru með um 2000 tonna farm af kolmunna,” segir hann. ,,Við notum tækifærið og skoðum skipið auk þess sem að tveir úr væntanlegri áhöfn fara með skipinu næsta túr.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst