Nýtt fasteignamat fyrir árið 2026 liggur nú fyrir hjá Þjóðskrá. Fasteignamatið í Vestmannaeyjum hækkar um 11,1% milli áranna 2025 og 2026. Hækkar íbúðahúsnæði m.a. um 11,4% og atvinnuhúsnæði um 9,9% milli ára. Líkt og á mörgum stöðum á landinu hefur fasteignamat farið hækkandi í Vestmannaeyjum síðustu ár. Þetta kom fram á síðasta fundi bæjarráðs Vestmannaeyja.
Fyrir bæjarráði lá einnig erindi frá Félagi atvinnurekenda þar sem sveitarfélög eru m.a. hvött til að skoða það að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði til að mæta hækkunum fasteignamats.
Undanfarin sex ár hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja ákveðið að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta og skatturinn hefur því ekki hækkað í takti við hækkun á fasteignamati sem skilar sér í sanngjarnari álagningu fasteignaskatta til íbúa og fyrirtækja í Vestmannaeyjum.
Í niðurstöðu ráðsins segir að Bæjarráð muni gera tillögu um að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta við undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026. Bæjarráð fól fjármálastjóra að vinna útreikninga til að byggja tillögur á.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst