Á fundi fræðsluráðs í gær fór fram umræða um tillögu fulltrúa D-listans frá síðasta fundi um framtíðarsýn í húsnæðismálum GRV.
Þar var lagt til að stofnaður verði starfshópur sem skoðar kosti þess að byggja við Hamarsskóla þannig að þar rúmist starfsemi Tónlistarskólans, frístundavers og að þar verði matar- og hátíðarsalur fyrir starfsemi skólanna.
Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi tillögu um framtíðarsýn í húsnæðismálum GRV:
,,Húsnæðiskostur Tónlistarskólans í Vestmannaeyjum er farinn að þarfnast verulegra úrbóta. Húsnæðið er orðið gamalt og aðgengi sérstaklega fyrir hreyfihamlaða ekki eins og best verður á kosið. Hamarskóla hefur gjarnan vantað matar- og samkomusal og frístundaverið hefur verið í húsnæði sem ekki var hannað fyrir starfsemi þess og þörf er á að koma í hentugra húsnæði til frambúðar og tengja það við skólann. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því til að stofnaður verði starfshópur sem skoðar kosti þess að byggja við Hamarsskóla þannig að þar rúmist starfsemi Tónlistarskólans, frístundavers og að þar verði matar- og hátíðarsalur fyrir starfsemi skólanna. Markmið hópsins verður m.a. að koma með lausnir fyrir skólana og frístundaver með það að leiðarljósi að koma á rekstrarhagræðingu, bæta aðstöðu Hamarsskóla, auka aðgengi að tónlistarnámi og koma í veg fyrir fækkun barna í tónlistarnámi, stytta vinnudag barnanna og ýta þannig undir samverustundir fjölskyldunnar og almennt gera fræðsluumhverfið aðgengilegra fyrir börn.
Hópurinn verði skipaður skólastjóra GRV og aðstoðarskólastjóra Hamarsskóla, skólastjóra tónlistarskólans, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs, framkvæmdastjóra framkvæmdasviðs, forstöðumanni frístundavers, formanni ráðsins, fulltrúa frá minnihluta og fulltrúa frá foreldraráði GRV.
Lagt er til að starfshópurinn skili af sér niðurstöðum fyrir lok síðari umræðna um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn.”
Tilögunni var hafnað með þremur atkvæðum meirihlutans gegn tveimur frá minnihluta. Þessu tóku fulltrúar Sjálfstæðisflokksins illa og sögðu mikilvægt að meiri- og minnihluti sameinist í góðum tillögum í stað þess að meirihluti eigni sér annarra verk. “Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera athugasemd við að tillögu okkar var hafnað að því er virðist einungis til að meirihlutinn geti lagt fram samskonar tillögu og látið þannig líta út fyrir að vinna sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa þegar farið í sé ekki fullnægjandi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að meiri- og minnihluti sameinist í góðum tillögum í stað þess að meirihluti eigni sér annarra verk,” segir í bókun minnihlutans.
Var þá lögð fram breytingartillaga sem allir gátu sætt sig á. „Felur ráðið framkvæmdarstjóra sviðsins að meta stöðuna eins og hún er í dag og fari í framhaldi af því í þarfagreiningu m.t.t. starfsemi næstu ára. Markmiðið er að meta kosti þess að koma allri starfsemi grunnskóla, tónlistarskóla og lengdrar viðveru undir sama þak. Framkvæmdastjóri sviðsins vinnur matið og greininguna í samstarfi tilheyrandi aðila. Lagt er til að niðurstöðunum verði skilað til fræðsluráðs og liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2019.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst