„Tónlistarskólinn hefur séð um tónlistarflutning í 1. maí kaffi verkalýðsfélaganna um langt árabil. Í dag er það stéttarfélagið Drífandi sem sér alfarið um kaffið og hefur samstarf skólans og Drífanda verið farsælt og með ágætum,“ segir Jarl Sigurgeirsson, skólastjóri Tónlistarskólans sem stóð fyrir mikilli tónlistarveislu í AKÓGES þann 1. maí sl.
„Það er frábært tækifæri fyrir nemendur að fá að sýna hvað í þeim býr og fyrir skólann að opna augu almennings fyrir því starfi sem þar á sér stað. Að þessu sinni kom fram Kvennakór Vestmannaeyja og var það vel til fundið þar sem dagurinn var tileinkaður baráttu kvenna í gegn um tíðina. Kvennakórinn er ein af skrautfjöðrum Tónlistarskólans og er að hluta til rekinn undir hatti skólans, eins og Karlakór Vestmannaeyja og Lúðrasveit Vestmannaeyja, þó svo þetta séu allt sjálfstæð félög.“
Tíu önnur atriði voru á dagskrá og voru þau fjölbreytt, allt frá því að vera blokkflautunemdnur og upp í heila lúðrasveit. Var öllum vel tekið og gaman að fá þetta tækifæri til að hlusta á unga fólkið sýna hvað það hefur lært.
Jarl segir starf Tónlistarskólans vera í nokkuð föstum skorðum frá ári til árs. Nemendafjöldinn er um 120 og er kennt á flestar gerðir hljóðfæra. „Vinsælast er píanónám og þar á eftir kemur nám á gítar. Nokkur biðlisti hefur verið í nám á þessi hljóðfæri, en fljótlegra er að fá pláss í skólanum ef sótt er um á blásturshljóðfærin. Nám á fiðlu hefur því miður ekki verið í boði síðasta ár. Opið er fyrir umsóknir allan ársins hring og er hægt að skrá sig rafrænt á vef Vestmannaeyjabæjar undir svæði Tónlistarskólans.“
Skólalúðrasveit Vestmannaeyja kom fram á tónleikunum 1. maí. Hún hefur verið starfrækt frá árinu 1978. „Í sveitinni eru um 20 meðlimir og hefur heldur fækkað undanfarin ár. Þeir nemendur sem læra á blásturshljóðfæri og slagverk eiga þess kost að spila með sveitinni. Skólalúðrasveitin fer í tónleikaferð til Spánar annað hvert ár og hefur það verið nokkur hvatning fyrir krakka að taka þátt. Einnig heimsækir sveitin þau Landsmót sem haldin eru hverju sinni þegar veður leyfir.
Við hvetjum alla til að kynna sér tónlistarnám. Það er einfalt að skrá sig og við tekur skemmtilegt nám sem getur skilað nemendum mikilli ánægju og ævintýrum. Það sér enginn eftir að prófa,“ sagð Jarl skólastjóri að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst