Dagskráin í gær á Goslokunum var vel þétt og skemmtileg. Margt í boði og eitthvað fyrir alla. Volcano open fór meðal annars fram um helgina. Golfarar voru mættir á golfvöllinn um klukkan átta í gærmorgun. Eins og sjá má kom regnhlífin sér að góðum notum á köflum.
Í Sagnheimum í gærmorgun fór fram spjallstund með Guðrúnu Erlingsdóttur. Þar átti sér stað samtal kynslóða og þeirra upplifun af gosinu.
Bryggjuveiðimót Sjóve fyrir börn á öllum aldri var niður við bryggju í gær og boðið var upp á sannkallaða fjölskylduveiðistund. Heimaklettsganga með leiðsögn þriggja kynslóða var farin í hádeginu í gær. Það voru þau Svavar Steingrímsson, Halla Svavarsdóttir og Sindri Ólafsson sem fóru með hópinn upp á topp.
Á sama tíma í Sundlaug Vestmannaeyja var mikið stuð en söngvarinn Dagur Sig. og gítarleikarinn Fannar héldu uppi fjörinu í lauginni.
Á Skansinum var Selma Ragnarsdóttir klæðskeri og kjólameistari með sýningu sem var nokkurs konar gjörningur, Að elska að hata, og var með vísun í fjólubláa náttúru Vestmannaeyja.
Landsbankagleðin var á sínum stað á Bárustígnum. Fjölskylduhátíð Landsbankans þar sem lifandi tónlist, hoppukastalar og blöðrur skemmtu gestum. Grillaðar pulsur voru í boði, krakkarnir gátu farið ferð í skólahreystibraut og Sproti skemmti gestunum.
Það kom með kalda vatninu, 50 ár frá fyrstu vatnsleiðslunni til Eyja. Opið málþing í Sagnheimum í gær. Farið var yfir söguna og þá byltingu sem koma vatnsins hafði og starfsemi fyrirtækja í Eyjum. Í Zame krónni á Strandveginum voru sagðar léttar og skemmtilegar sögur úr gosinu og frá gosárunum með þeim félögum Hallgrími Tryggvasyni og Halldóri Waagfjörð. Fullt var út að dyrum hjá þeim félögum.
Fornbílaklúbburinn sýndi nokkra vörubíla í tilefni þess að um öld er liðin frá komu fyrstu vörubílanna til Vestmannaeyja.
ÍBV tók á móti Breiðablik á Hásteinsvelli í gær og skildu liðin jöfn 0-0. Yfir 600 mans voru á leiknum og mikil stemming. ÍBV er nú í 8. sæti með 12 stig.
Í Eldheimum seinnipartinn í gær voru tónleikar með Silju Elsabet Brynjarsdóttur og Rúnari Kristni Rúnarssyni. Þau fluttu nokkrar af perlum íslenskrar dægurlagatónlistar við undirleik píanósnillingsins Pálma Sigurhjartarsonar. Það var því mikið um að vera að deginum til í gær.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst