Nemendur í Grunnskóla Vestmmannaeyja eru samtals 534 og kennarar og annað starfsfólk telur 122, samtals 656 sem gerir Grunnskólann að særsta vinnustað í Vestmannaeyjum. Þar af eru í Hamarsskóla 180 nemendur og starfsmannafjöldi 52. Þar eru 14 nemendur á fimm ára deildinni og tíu í frístund. Í Barnaskólanum eru 354 nemendur og starfsmenn 70. Þetta kom fram á setningu Grunnskólans í Íþróttamiðstöðinni í gær, föstudaginn 22. ágúst.
Tilhlökkun á nýju skólaári
„Það er alltaf ákveðin tilhlökkun að hefja nýtt skólaár. Fyrir nemendur er þetta stund til að hitta vini, sjá ný andlit og takast á við ný verkefni. Fyrir foreldra er þetta stund til að fylgjast með börnunum vaxa og dafna. Fyrir starfsfólkið okkar er þetta stund til að hefja aftur það mikilvæga hlutverk sem felst í að leiða, hvetja og efla unga fólkið okkar,“ sagði Anna Rós Hallgrímsdóttir skólastjóri Hamarsskóla þegar Grunnskóli Vestmannaeyja var settur í gær.
Í fyrra var GRV skipt í Barnaskóla og Hamarsskóla og stýrir Einar Gunnarsson Barnaskólanum þar sem eru börn í fimmta upp í tíunda bekk. „Fyrsta skólaár með skólana í tveimur einingum hefur gengið vel og höfum við öðlast reynslu sem nýtist á komandi skólaári. Við stefnum á áframhaldandi samstarf milli skóla og teljum mjög mikilvægt að halda áfram í þá hluti sem gerir okkur að sterkri liðsheild,“ sagði Anna Rós og benti á að þó Kveikjum neistann sé leiðarstefið snúist skólinn ekki bara um bóklegt nám.
Hugarfar, ástríða, hreyfing og félagsleg tengsl
„Hann snýst líka um hugarfar, ástríðu, hreyfingu og félagsleg tengsl. Við viljum að þið nemendur lærið að takast á við áskoranir, sýnið úthald og seiglu þegar eitthvað er erfitt. Við viljum að þið séuð glöð ef þið náið ykkar markmiðum og hafið trú á því að þið getið náð þeim. Það er líka mikilvægt að læra að gleðjast yfir árangri annarra, það gerir okkur að betra liði,“ sagði Anna Rós og ávarpaði næst nemendur og foreldra.
„Kæru nemendur – þið eruð ástæðan fyrir því að við erum hér. Ég vil hvetja ykkur til að taka nýja skólaárið með opnum hug. Ekki vera hrædd við að gera mistök – þau eru hluti af náminu. Spyrjið spurninga, leyfið ykkur að vera forvitin, og munið að hver dagur í skólanum er tækifæri til að læra eitthvað nýtt.
Kæru foreldrar– samstarf við ykkur er ómetanlegt. Þið eruð helsti stuðningur barnanna ykkar, og þegar heimili og skóli ganga í takt, verða árangurinn og líðan barnanna mun betri. Við hlökkum til að eiga áfram gott samstarf við ykkur og biðjum ykkur að halda áfram að sýna áhuga, fylgjast með og hvetja börnin á leið þeirra í gegnum skólagönguna.
Kæra starfsfólk – þið vitið best hversu mikilvæg störf ykkar eru. Það er ekki lítið hlutverk að hafa áhrif á líf og framtíð barna og ungmenna. Það krefst fagmennsku, ástríðu og mikils úthalds. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir þann metnað og þann eldmóð sem þið sýnið í starfi ykkar. Það er ykkar kraftur sem gerir skólann að þeim stað sem hann er,“ sagði Anna Rós.
Trú á eigin getu og vilji til að hjálpast að
„Undanfarin ár höfum við lagt mikla áherslu á verkefnið Kveikjum neistann. Á síðasta skólaári voru allir árgangar Hamarsskóla að starfa eftir hugmyndafræðinni og í vetur ætlum við að halda áfram að þróa Kveikjum neistann við Barnaskólann. Í Barnaskólanum hefur starfsfólkið undirbúið sig vel til að taka á móti nýjum nemendum 5. bekkja og munu halda áfram að efla og þróa Kveikjum neistann,“ sagði Einar, skólastjóri Barnaskólans.
„Í þessu ljósi vil ég nefna að síðastliðin ár höfum við í Barnaskólanum verið með þjálfunartíma og ástríðutíma á miðstiginu til að undirbúa okkur fyrir Kveikjum neistann. Verðandi 5. bekkur mun að sjálfsögðu halda áfram að vinna eftir hugmyndafræðinni og 6. bekkur mun einnig taka inn margt úr hugmyndafræðinni sem þýðir m.a. að stundaskrá 6. bekkjar tekur að hluta til mið af Kveikjum neistann.
Með þessu kveikjum við fleiri neista, sem vonandi leiðir til þess nemendur okkar finna gleði í að læra, forvitnast og sjá heiminn í nýju ljósi,“ sagði Einar bætti við að fram undan er nýr vetur, nýjar áskoranir og ný tækifæri.
Standa saman sem samfélag
„Við munum standa saman sem samfélag, styðja hvert annað, gleðjast saman og leysa verkefnin sem mæta okkur. Ég er sannfærður um að ef við göngum öll inn í þetta skólaár með jákvæðu hugarfari, trú á eigin getu og vilja til að hjálpast að, þá verður þetta skólaár eftirminnilegt.
Við lýsum hér með skólaárið í Grunnskóla Vestmannaeyja formlega hafið. Megi það verða ár lærdóms, vináttu og vaxandi sjálfstrausts fyrir nemendur okkar – og ár stolts og ánægju fyrir okkur öll sem tilheyrum skólasamfélaginu. Takk fyrir, og gangi ykkur öllum vel í vetur,“ sagði Einar.
Í næsta tölublaði Eyjafrétta sem kemur út á fimmtudaginn 28. ágúst er ítarleg umfjöllun um skólamál í Vestmannaeyjum og Kveikjum neistann sem er ljósið í myrkrinu í íslenska skólakerfinu sem skorar ekki hátt í alþjóðlegum samanburði.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst