„Já, þetta er að mínu mati eitt af aðalatriðunum sem barnafjölskyldur horfa til þegar þau ákveða hvort flytja eigi í annað sveitarfélag. Vinna og húsnæði eru auðvitað númer eitt og tvö en aðstæður fyrir börnin til íþróttaiðkunar kemur þar fast á eftir,“ segir Gunnar Páll Hálfdánsson um þá þætti sem fjölskyldan skoðaði áður ákveðið var að flytja til Vestmannaeyja fyrir tólf árum. Hann er Vestfirðingur, alinn upp á Flateyri. Í dag vinnur hann hjá Vinnslustöðinni og er formaður ÍBV-Héraðssambands.
„Frá því ég var ungur fyrir vestan hefur maður heyrt að íþróttir og æskulýðsstarf séu besta forvörn sem í boði er. Því er ég sammála. Á einstaklega vel við í dag þegar við keppumst við að ala börnin okkar upp í umhverfi samfélagsmiðla. Umhverfi sem allan daginn alla daga ræður meira um uppeldi barnanna okkar en við foreldrarnir. Því er félagslegur þroski í íþróttastarfi svo mikilvægur í dag.“
Öflugir sjálfboðaliðar
Þið eigið fjögur börn. Hefur íþróttahreyfingin hér staðist þær væntingar sem þið höfðuð? „Já, ég myndi segja það. Hér fundu öll börnin mín eitthvað við sitt hæfi. Karate, handbolta, fótbolta, f imleika, skák og golf eru íþróttir sem þau hafa æft af fullum krafti eða að hluta í þessi tólf ár síðan við fluttum til Vestmannaeyja.“
Eitthvað sem kom ykkur á óvart? „Já, hversu öflugt íþróttastarfið er. Við erum rétt um 4700 og eigum mjög góða og öfluga einstaklinga sem leggja mikið á sig í sjálfboðaliðastarfi fyrir hreyfinguna.“ Hvað stendur upp úr? „Ef þú ert að spyrja hvað stendur upp úr hvað varðar íþróttir yfir höfuð er það þegar okkur tekst að landa Íslands- eða bikarmeistaratitlum. Hvort sem er í karla- eða kvennaf lokki í handbolta eða fótbolta. Það verður alltaf svo skemmtilega geggjuð stemning. En svona meira á persónulegu nótunum, þá f innst mér Stjörnuleikurinn alltaf vera svo yndisleg stund.“
Hvað má betur fara? „Mér finnst þetta alltaf frekar leiðinleg spurning. Þrátt fyrir allt það góða sem gert hefur verið í gegnum tíðina og verið er að gera er alltaf mikilvægt að við hugum að því sem skiptir mestu máli, sem eru krakkarnir.
Við getum alltaf gert betur
Mikilvægt er að allir sem koma með einum eða öðrum hætti að íþrótta- og æskulýðsstarfi hafi að leiðarljósi, að huga að börnunum. Hvort sem er bæjarfulltrúi að taka ákvarðanir varðandi uppbyggingu á aðstöðu fyrir íþróttir, stjórnarmeðlimir í aðildarfélögum að huga að yngri flokka starfi, þjálfarar nú eða sjálfboðaliði í hreyfingunni. Öll eigum við að hugsa fyrst og fremst um að gera aðstöðu og umhverfi sem allra best fyrir börnin. Það skilar sér margfalt upp í meistaraflokkana með sterkari einstaklingum. Líka betri félagsmönnum inn í starfið.“
Skilum ungu fólki tilbúnu út í lífið
Þú hefur verið í stjórn ÍBV–Héraðssambands frá árinu 2020 og formaður frá 2022. Eitthvað sem kom þér á óvart eftir að þú steigst inn fyrir dyrnar? „Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í þegar ég sagði já við Bjössa vin minn, Björn Matthíasson í Vinnslustöðinni um að koma í stjórnina. Það sem hefur kannski komið á óvart og samt ekki, er hversu margir góðhjartaðir einstaklingar eru tilbúnir að gefa af tíma sínum til íþróttahreyfingarinnar. Á sama tíma er þetta ein stærsta áskorun hreyfingarinnar í dag að finna sjálfboðaliða. Eins og ég minntist á hér áður, er eitt helsta verkefni okkar að ala upp félagsmenn. Í mínum huga er stærsta verkefni íþróttafélaganna að ala börnin upp í heilbrigðu umhverfi þar sem hreyfing, samvera og liðsandi ræður ríkjum. Þar skipta forvarnir miklu máli og á íþróttahreyfingin að vera fyrirmynd fyrir börn og unglinga. Halda þeim sem lengst fjarri óheilbrigðum lífsstíl. Þannig minnkum við brottfall og skilum ungu fólki tilbúnara út í lífið.“
Hvert er hlutverk stjórnarinnar? „Hlutverk stjórnar ÍBV-Héraðssambands er margþætt en í grunninn er okkar tilgangur að efla, samræma og styðja við íþróttastarfsemi í Vestmannaeyjum í samræmi við íþróttalög sem og lög og reglur ÍSÍ. Þá styður Héraðssambandið við aðildarfélögin eins vel og við getum.“
Hvernig metur þú stöðuna í dag og hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? „Staðan í dag er góð að mörgu leyti. Það er mikil þátttaka og sterkur samfélagsandi. Það sem við sem samfélag þurfum að huga að er aðstaða, fjölbreytni og faglegur stuðningur við hreyfinguna. Ef við erum dugleg í að fjárfesta í fólki, aðstöðu og bjóða uppá jöfn tækifæri þá er framtíðin björt. Einnig vil ég nota tækifærið og hvetja foreldra og forráðamenn, eldri iðkendur og í raun alla sem hafa áhuga til að gefa af sér til hreyfingarinnar. Við erum fyrirmyndir barnanna og það gerist ekkert af sjálfu sér.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst