ÍBV leikur í kvöld þriðja útileikinn af fjórum í upphafi Íslandsmótsins þegar liðið sækir FH heim. Upphaflega átti liðið að leika þrjá útileiki og einn heimaleik, gegn Val en þeim leik var víxlað á milli félaganna vegna öskufallsins. Því byrja Eyjamenn á fjórum útileikjum og sjálfsagt ágætt að eiga þá ekki eftir. Það verður allt annað en auðvelt að sækja sjálfa Íslandsmeistarana heim en þetta er fyrsti heimaleikur þeirra í sumar. Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV var hins vegar bjartsýnn þegar rætt var við hann í vikunni.