Á föstudaginn sl. héldu bæjaryfirvöld kynningarfund vegna listaverks Olafs Eliassonar sem til stendur að reisa í tilefni af 50 ára goslokaafmælis. Á fundinum komu fram nokkrar fyrirspurnir úr sal. Ein af þeim kom frá Margréti Rós Ingólfsdóttur, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Þar spurði hún um hver heildarkostnaður við framkvæmdina sé áætlaður. Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar svaraði fyrirspurninni í lok fundar. Í svari hans kom fram að gróf kostnaðaráætlun sé um 200 milljónir, en hversu langt fram úr þeirri tölu kostnaðurinn færi liggur ekki fyrir, en þar nefndi Páll töluna 220 milljónir. Hann benti á að í dag væri skuldbinding Vestmannaeyjabæjar 50 milljónir og skuldbinding ríkissjóðs er aðrar 50 milljónir. Það mun vera kostnaður við verkið sjálft sem rennur til listamannsins. Annar kostnaður sem þá er ófjármagnaður upp á 100 – 120 milljónir felst þá í gatnagerð og bílastæðum.
Páll benti á að innan bæjarkerfisins hafi á annan tug bókana verið bókaðar um þetta mál á undanförnum árum og hafi þær ávallt verið samþykktar með öllum greiddum atkvæðum. Fram kom hjá Páli að ekki sé reiknað með inn í þessum tölum bílastæði.
„Kostnaður bæjarbúa af þessu eru þessar fyrrgreindar 50 milljónir plús einhver viðbót sem gæti falist í þessu bílastæði sem ekki er vitað hvað kostar en það eru ekki stórar upphæðir,” sagði Páll í lok fundarins.
Eyjafréttir sendu Margréti Rós fyrirspurn um hvort svar Páls hafi komið henni á óvart. „Já, svarið kom á óvart. Upplýst var um að göngustígurinn kostar 100 milljónir sem er upphæð sem við, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum ekki heyrt áður. Í skipulagsgögnum er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum, göngustíg að stálkúlunni og göngustíg frá stálkúlunni að stígnum upp á Eldfellið. Allt kostar þetta peninga og ég hef óskað eftir upplýsingum um kostnað við allt þetta, sem og kostnað við stálkúluna. Þessum spurningum hefur hingað til ekki verið svarað.”.
Páll fullyrti að kostnaður bæjarbúa við þessa framkvæmd sé 50 milljónir og auk þess er kostnaður við lítið bílastæði sem hann veit ekkert hvað kostar. Á þá að setja umfram-kostnað við þetta á eitthvað óskylt í bókum bæjarsjóðs? Ef svo er – finnst þér það eðlilegt?
Ég átta mig ekki á því hvar á að skrá þetta í bókum bæjarsjóðs og nei, það er ekki eðlilegt að gera það.
Hér má horfa á upptöku frá umræddum fundi. Fleiri myndir frá fundinum má sjá hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst