Að sögn Ólafs Jóhanns Borgþórssonar, framkvæmdastjóra Herjólfs, eru dagarnir í kringum og yfir þjóðhátíðina mjög líflegir hjá starfsfólki Herjólfs. „Það má segja að undirbúningur þjóðhátíðarinnar hjá okkur á Herjólfi standi yfir í marga mánuði, áður en miðasalan hófst í febrúar var búið að ganga þannig frá málum að heimasíðan þoli álagið sem myndast um leið og salan á þjóðhátíðar opnar.“
Ólafur segir fjölda fólks úr ólíkum áttum koma að farþegaflutningum í kringum verslunarmannahelgina: „Auk starfsfólks og áhafnar Herjólfs fáum við meðlimi Björgunarsveitarinnar Bjargar á Eyrarbakka til að stýra umferðinni í Landeyjahöfn og græja töskubílinn, starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar til að sjá um öryggisgæslu um borð í skipinu og svo stýrir Silli Þórarins allri bílaumferð hér á mánudaginn, auk þess erum við í góðu samstarfi við starfsmenn Vestmannaeyjahafnar, áhaldshússins ýmsa þjónustuaðila og auðvitað þjóhátíðarnefnd ÍBV.“
Látum gleðina, vináttuna og kærleikann leiða okkur
Aðspurður segir Ólafur þetta skemmtilega vertíð: „Ég er að sjá þetta í fyrsta sinn sem starfsmaður Herjólfs og það er svo gaman að sjá að allt gengur þetta eins og smurð vél og allir þekkja sín hlutverk mjög vel og nú síðustu dagana hefur þjóðhátíðarstemningin aukist jafnt og þétt, það eru allir í þjóðhátíðarskapi.
Aðspurður um veðurspána segist Ólafur ekki kvíða neinu. „Veðrið lítur ekki út fyrir að verða sérlega hagstætt, auðvitað getur orðið eitthvað jask – en fólk er hingað komið til þess að skemmta sér fallega og þá breyti engu hvort von sé á sólskini eða rigningu.
Ég óska öllum gleðilegrar þjóhátíðar, látum gleðina, vináttuna og kærleikann leiða okkur áfram og búum til dásamlega minningar um helgina sagði Ólafur í lokin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst