Hlynur Már heiðraður fyrir frækilega björgun
DSC_4310
Gísli Matthías Sigmarsson, formaður Sjómannadagsráðs, Hlynur Már og Ríkharður Stefánsson í Sjómannadagsráði. Mynd/Óskar Pétur.

Sjómannadagsráð Vestmannaeyja sæmdi Hlyn Má Jónsson, vert á Lundanum heiðursskildi fyrir hetjulega björgun sjómanns úr höfninni í Vestmannaeyjum þann 27. febrúar 2024. Málsatvik voru þau að Hlynur skutlar tveimur úr áhöfn Kap II VE um borð. Annar fer strax um borð en hinn er í smá spjalli í bílnum hjá Hlyni. Fer síðan og röltir upp landganginn sem var illa eða ekki festur við skipið.

Þetta kom fram hjá Valmundi Valmundssyni, formanni Sjómannasambandi Íslands sem afhenti viðurkenningar á hátíðardagskrá Sjómannadagsins á Stakkó í Vestmannaeyjum í dag. „Þegar hann er kominn langleiðina um borð teygir félagi hans, sem var um borð, sig í hann en fellur við og steypist með höfuðið á undan milli skips og bryggju,“ sagði Valmundur.

„Hlynur sér þetta útundan sér en hann var að snúa bílnum við. Hann bregður skjótt við og hleypur að bátnum. Sá sem var í landgangnum fraus alveg og gat ekki gert neitt. Hlynur ætlar að príla niður til mannsins en hættir við sem betur fer.

Fer um borð og finnur færi á belg sem hann kastar til mannsins sem er með meðvitund allan tímann. Maðurinn nær taki á færinu og vefur því um hendina. Nú nær Hlynur að hringja í 112 og tilkynna slysið. Viðbragðsaðilar voru fljótir á vettvang að sögn Hlyns og hann hrósar þeim í hástert.

Kramdist milli skips og bryggju

Tveir lögreglumenn komu fyrstir og síðan fólk úr björgunarsveitinni og slökkviliðinu. Lögreglan er með Björgvinsbelti í bílnum sem þeir notuðu til að ná manninum úr sjónum. Maðurinn hafði kramist að minnsta kosti þrisvar sinnum á milli skips og bryggju áður en honum var bjargað.

Hlynur vill taka fram, og leggur til, að Björgvinssbelti ætti að vera á hverjum landgangi sem tengir skip og bryggju. Hann vonar að enginn þurfi að lenda í svona lífsreynslu og til þess þarf fyrirbyggjandi aðgerðir,“ Valmundur og bætti við.

„Hlynur Már Jónsson, hafðu þökk fyrir að bjarga manni í nauð. Takk fyrir að leggja þig í hættu fyrir aðra. Sjómannadagsráð Vestmannaeyja sæmir þig heiðursskildi og merki fyrir björgunina og þakkar í leiðinni þeim sem að björgunninni komu. Lögreglunni í Vestmannaeyjum, Björgunarfélagi Vestmannaeyja og Slökkviliði Vestmannaeyja. Njóttu sæmdar þinnar Hlynur Már,“ sagði Valmundur að endingu.

Nýjustu fréttir

Saltfisksala hjá meistaraflokkum ÍBV
ÍBV með mikilvægan sigur á ÍR
Kveikjum neistann: Jákvæðar vísbendingar
Hvattning til Eyjamanna
Heilsuefling starfsfólks fær aukið vægi
Handhafar Frétta-píramída 1992-95
ÍBV sækir ÍR heim
Siglt til Þorlákshafnar

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.