Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur tryggt Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) rúmlega 140 milljóna króna fjárveitingu til kaupa á nýju tölvusneiðmyndatæki. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar er haft eftir Díönu Óskarsdóttur, forstjóra HSU að nýtt tölusneiðmyndatæki muni skipta sköpum í þjónustu við sjúklinga, einkum við greiningu og meðferð bráðatilfella.
Fjármagnið gerir HSU kleift að ganga inn í útboð sem nú stendur yfir og eru vonir bundnar við að hægt verði að festa kaup á tækinu og setja það upp á næstu mánuðum. Tækið kemur í stað eldra tækis og felur í sér mikilvæga uppfærslu. Þróun þessa tækjabúnaðar hefur verið hröð síðustu ár. Ný tölvusneiðmyndatæki leiða m.a. af sér minna geislaálag á sjúklinga þá hefur rannsóknarhraðinn og þar með getan aukist til mikilla muna. „Þetta er kærkomin uppfærsla á mikilvægum tækjabúnaði sem skiptir miklu máli fyrir öryggi sjúklinga, greiningu og meðferð“ segir Díana.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst