Mikill mannfjöldi er kominn til Vestmannaeyja og búist er við að fjöldi fólks leggi leið sína til eyjarinnar í dag. Í gærkvöld fór hið árlega Húkkaraball fram í blíðu veðri og var nóttin fremur róleg og góður bragur yfir skemmtanahaldinu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum.
„Lögreglan hefur sem fyrr mikinn viðbúnað yfir hátíðina og mun leggja sérstakleg áherslu á að koma í veg fyrir vopnaburð hátíðargesta og verður tekið hart á slíkum brotum. Þá vill lögregla benda hátíðagestum á að hvasst getur orðið um miðnættið og því full ástæða til þess að festa tjöldin vel niður.
Að endingu viljum við vekja athygli hátíðargesta á að vera vakandi fyrir umhverfi sínu, stuðla að öryggi í samskiptum, virða mörk og benda á ef einhver sýnir óæskilega hegðun. Þannig getum við stuðlað að góðri skemmtun án ofbeldis, átaka eða áreitni,” segir í tilkynningunni.
Ljósmyndari Eyjafrétta leit við á Húkkaraballinu í nótt og tók meðfylgjandi myndir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst