Cloé Lacasse, leikmaður ÍBV öðlaðist í vikunni íslenskan ríkisborgararétt þegar frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar var samþykkt á Alþingi. Cloé er 25 ára gömul og er annar markahæsti leikmaður ÍBV í efstu deild frá upphafi með 50 mörk. Cloé er annar markahæsti leikmaðurinn í Pepsi Max-deildinni og hefur skorað 7 mörk í sex leikjum ÍBV í deildinni. Sigríður Lára Garðarsdóttir, fyrirliði ÍBV og liðsfélagi Cloé telur hana eiga fullt erindi í landsliðið.
Leikmaður sem styrkir liðið
„Cloé á klárlega erindi í íslenska landsliðið og hún hefur alla burði til þess að standa sig mjög vel fyrir land og þjóð. Ég hef spilað með henni frá árinu 2015 og þekki hana því mjög vel og það leikur ekki nokkur vafi á því að hún myndi styrkja liðið,“ sagði Sigríður Lára í samtali við Morgunblaðið í gær. „Landsliðið vill koma boltanum fram völlinn þar sem styrkleikar liðsins, undanfarin ár, hafa kannski ekki alveg legið í því að halda boltanum innan liðsins. Hún hefur gríðarlegan hraða og það mun henta leikstíl liðsins mjög vel. Hún er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað allar stöðurnar, fremst á vellinum, og ég tel að hún myndi passa mjög vel inn í hugmyndafræðina sem unnið hefur verið með á undanförnum árum.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst