Fasteignafélagið Kaldalón hf. hefur eignast safn íbúða og húsa í Vestmannaeyjum. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag. Eignirnar hafa verið leigðar út á vegum Nýja Pósthússins (thenewpostoffice.is) og Westman Islands Villas & Apartments (westmanislandsluxury.is). Eigendaskiptin tengjast viðskiptum Kaldalóns og Skuggasteins ehf. en Skuggasteinn keypti helmingshlut Kaldalóns í Steinsteypunni ehf. Viðskiptin eru í samræmi við þá stefnu Kaldalóns að selja eignir utan kjarnareksturs félagsins, samkvæmt tilkynningu.
Skuggasteinn greiddi hluta kaupverðsins með fasteignunum Vestmannabraut 22, Búhamri 2, 6, 8 og 10, Básaskersbryggju 2 og Kirkjuvegi 20 í Vestmannaeyjum ásamt lausafé fasteignanna. Brunabótamat er samtals 954 milljónir króna. Kaldalón átti fyrir dreift eignasafn atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, þar af þrjár fasteignir þar sem rekin eru hótel. Það er Storm hótel við Þórunnartún, Sand hótel á Laugavegi og Vegamótastígur 7-9 sem hýsir Room With a View að hluta. Kaldalón kemur ekki að rekstri hótelanna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst