Formleg opnum aðstöðu verkefnisins KARLAR Í SKÚRUM í Vestmannaeyjum verður í sal dagdvalarinnar á Hraunbúðum í dag, föstudaginn 18. október kl. 14.30. Eyjamenn eru hvattir til að mæta og kynna sér verkefnið. Gestir frá Hafnarfirði og Mosfellsbæ mæta og kynna starfsemina í sínum klúbbum. Örn Ragnarsson formaður félags trérennismiða á Íslandi mætir og segir frá handverkshópnum Snúið og skorið í Hafnarfirði. Jón Bjarni Bjarnason formaður Karla í Skúrum í Hafnarfirði skýrir starfsemi félagsins, sem er með mörg járn í eldinum. Fulltrúar frá Karlar í Skúrum Mosfellsbæ mæta og mun Páll Steindórsson segja frá fjölbreyttu og kraftmiklu starfi þeirra.
Á laugardeginum 19. október frá kl. 10.00 til kl.15.00 munu gestirnir verða með námskeið í rennismíði sem Örn mun annast og Páll verður með námskeið í tálgun og útskurði. Einnig verður farið yfir umgengni um verkfæri og brýningu renni- og útskurðarjárna. Hvetjum sem flesta áhugamenn að mæta á þetta einstaka tækifæri. Seinna í haust eða vetur mun Bjarni Þór Kristjánsson tréskurðarmeistari vera með námskeið í útskurði og tálgun.
Karlar í skúrum er úrræði sem gefur karlmönnum stað og stund til þess að hittast og vinna að sameiginlegum eða eigin verkefnum á sínum hraða. Markmið verkefnisins er að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karla er höfð í fyrirrúmi og þeir geti haldið sér við líkamlega, andlega og félagslega. Megináhersla er lögð á vinnu í tré og hvers konar annað handverk og er tilgangurinn að auka lífsgæði gegnum handverk, tómstundir og ekki síst samveru.
Lionsklúbbur Vestmannaeyja
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst