Nýlega var ég að kynna mér fiskveiðiráðgjöf í makríl og rak þá augun í að stærð stofnsins hefur verið endurmetin langt aftur í tímann. Nú er talið að stofninn hafi verið mun stærri undanfarin ár en áður var talið. Hrygningarstofn makríls var til dæmis talinn hafa verið 2,7 milljónir tonna árið 2012. Við endurmat Alþjóðahafrannsóknarráðsins er hann talinn hafa verið ríflega 11 milljónir tonna. Það er ríflega fjórfföld aukning.
Einna sárgrætilegast er að Jens Christian Holst, fremsti sérfræðingur Norðmanna á sviði líffræði uppsjávarfiska hefur haldið því fram á annan áratug að Alþjóðahafrannsóknarráðið vanmeti stærð makrílstofnsins í Atlantshafi. Meðal annars út frá endurheimtum fiskmerkja.
Það er ekki fyrr en nú árið 2025 sem matið er fært í átt að vel rökstuddri gagnrýni Norðmannsins. Flest ef ekki allt bendir til að Íslendingar hafi orðið af gríðarlegum verðmætum vegna „ráðgjafar“ síðasta áratugar sem meðal annars kom í veg fyrir frjálsar veiðar smábáta.
Hafa ber í huga að Alþjóðahafrannsóknarráðið er fyrst og fremst samráðsvettvangur fiskifræðinga Hafrannsóknarstofnunar og systurstofnana hennar í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Ráðið er hins vegar ekki óháður aðili.
Ef farið er yfir makrílveiðar frá aldamótum og þær bornar saman við endurmetinn hrygningarstofn blasir við að veiðin hefur verið langt undir því hlutfalli sem Alþjóðafiskveiðiráðið miðar við. Allt tal um að stofninn hafi verið ofveiddur um langt skeið er einfaldlega rangt.
Það ætti að vera sérstakt rannsóknarefni hvers vegna makrílstofninn dróst hratt saman frá árinu 2015 þótt veiði hafi lengst af verið innan við helmingur af ráðlögðu veiðihlutfalli. Sú staðreynd að stofninn hefur dregist saman þrátt fyrir vannýtingu ætti að staðfesta að áhrif veiða væru stórlega ofmetin þegar lagt er mat á sveiflur fiskistofna.
Nú þegar rætt er um samning um skiptingu á makrílkvótanum er nauðsynlegt að grandskoða forsendur ráðgjafarinnar. Það er kristaltært að hún stendur á brauðfótum.
Fyrsta skrefið ætti að vera að fara meðal annars yfir faglega gagnrýni Jens Christians Holst sem ýtt hefur verið til hliðar hingað til.
Sigurjón Þórðarson
Formaður atvinnuveganefndar Alþingis.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst