Meira afrek en að fara holu í höggi

Eyjapeyinn Jón Valgarð Gústafsson skellti sér í Albatrosklúbbinn um helgina þegar hann náði draumahögginu á 18. holu í Vestmannaeyjum. Hann notaði 5-járnið í höggið sem var af 180 metrum. Hann hefur aldrei farið holu í höggi og telur Albatros jafnvel vera merkilegra afrek.

Jón lýsti högginu í samtali við vefinn kylfingur.is. „Þegar ég sló boltann hafði ég ekki beint á tilfinningunni að þetta væri eitthvað draumahögg, hann var aðeins hægra megin en það var reyndar smá vestan gola. Félagarnir í hollinu fullyrtu að boltinn hefði farið ofan í en ég taldi það vera eitthvað rugl, hélt að hann væri hægra megin á flötinni. Þess vegna var skemmtileg tilfinning að labba að holunni og sjá boltann í henni. Ég myndi segja að það sé meira afrek að ná albatros heldur en að fara holu í höggi, á teig getur maður auðvitað alltaf tí-að upp og þó svo að hola í höggi á par 4 holu jafngildi albatros, myndi ég alla vega alltaf kalla það að fara holu í höggi. Gunnar Geir bróðir hefur fjórum sinnum náð að fara holu í höggi og hefur það því á mig en ég hef á móti albatrosinn. Ég er með 0,8 í forgjöf og það er væntanlega alltaf þannig að þeir forgjafalægri hljóta oftar að setja sig í möguleikann á að fara holu í höggi eða ná albatros. Hins vegar eru mjög margir frábærir kylfingar sem ná þessu aldrei, heppnin spilar auðvitað rullu líka en samt eru möguleikar betri kylfinga eðlilega alltaf meiri.“

Það er kominn Þjóðhátíðargír í Eyjapeyjann. „Já, við spilum Þjóðhátíðarlögin stöðugt í vinnunni og maður finnur hvernig stemningin magnast örugglega upp. Golfvöllurinn er opinn á seinni níu svo það verður hægt að spila golf yfir helgina, það er aldrei að vita nema ég tölti mér hring. Það er allur gangur á því hvernig ég hef haft þetta, ef félagar eru að koma á Þjóðhátíð sem spila golf, förum við stundum. Þetta kemur bara í ljós, ég hlakka alla vega mikið til,“ sagði Jón Valgarð að lokum.

Nýjustu fréttir

Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Bæjarráð gagnrýnir samgönguáætlun
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.