Mest af ýsu
Vestmannaey_bergur_jan_24_tms
Vestmannaey og Bergur við bryggju í Eyjum. Eyjar.net/TMS

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu í Vestmannaeyjum á miðvikudagskvöld. Þeir voru báðir nánast með fullfermi og var mest af ýsu í aflanum. Hvor togari landaði einnig um 20 tonnum í Neskaupstað á laugardaginn og biðu þar af sér brælu.

Rætt er við Ragnar Waage Pálmason, skipstjóra á Bergi á vef Síldarvinnslunnar. Þar er hann spurður hvar hefði verið veitt.

„Í þessum túr var víða farið meðal annars vegna veðurs. Við byrjuðum túrinn á Ingólfshöfða og þar var nuddveiði. Við urðum frá að hverfa þaðan vegna veðurs og þá var haldið austur fyrir land. Við lönduðum slatta í Neskaupstað og biðum þar þangað til veðrið skánaði. Síðan fórum við út á Gerpisflak að leita að ýsu en þar var róleg veiði. Við héldum á Gula teppið og tókum þar eitt hol og þaðan í Berufjarðarálinn. Þar var ágæt dagveiði en lítið að hafa yfir nóttina. Keyrðum þaðan á Ingólfshöfðann og tókum einn sólarhring þar. Af Höfðanum var farið í Meðallandsbugtina og þar fengum við ágætis kokteil. Við enduðum svo á Pétursey þar sem tekið var eitt stutt hol áður en haldið var í land,” segir Ragnar.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, var spurður hvort Vestmannaey hefði veitt jafn víða og Bergur. “Já, við vorum á mjög svipuðu róli. Byrjuðum á Ingólfshöfða, lönduðum í Neskaupstað og eftir það var veitt á Gerpisflaki, Skrúðsgrunni, í Berufjarðarál, Breiðamerkurdýpi og Meðallandsbugt. Það var reitingur hér og þar en hvergi neinn verulegur kraftur í veiðinni,” segir Birgir Þór.

Bæði Bergur og Vestmannaey héldu á ný til veiða í gærkvöldi, segir í frétt Síldarvinnslunnar.

Nýjustu fréttir

Viðhorf til bæjarstjóra í brennidepli í nýrri könnun
Vinnustofur í stað líkamsræktar?
Glacier Guys með nýtt föstudagslag
„Úttroðinn af loðnu”
Fréttapýramídar afhentir fyrir nýliðið ár
Karlar hvattir til að sýna handverk
Guðbrandur Einarsson segir af sér þingmennsku
Mikill áhugi á Eyjagöngum
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.